Læknafélagið ítrekar beiðni um vinnuhóp fyrir landsbyggðarlækna

Læknafélaginu hafa engin viðbrögð borist vegna erindis sem það sendi 12. júní 2019 um beiðni þess að stjórnvöld setji á vinnuhóp sem geri tillögur um endurskoðun á skipulagi, starfsaðstæðum og tilgreindum kjaraþátttum heilsugæslulækna á landsbyggðinni. Í vinnuhópnum sitji fulltrúar stjórnvalda annars vegar og LÍ og Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) hins vegar. 

Félagið hefur ítrekað beiðni sína í bréfi frá 18. maí. Það telur mikilvægt að þessum málum verði komið á hreyfingu og ítrekar því beiðni sína í bréfi til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Í bréfinu frá því í fyrra er ástandið á landsbyggðinni rakinn.

„Vandinn hefur farið vaxandi og mun tæpast ofmælt að segja að það stefni í hrun í mönnun lækna á heilsugæslustöðvum víða úti á landi verði ekki brugðist við. Með eflingu sérnáms í heimilislækningum hefur dregið úr þessum vanda í þéttbýli en en enn vantar mikið uppá að nýmenntaðir heimilislæknar sækist eftir því að fara í stöður heilsugæslulækna í dreifbýli.“

Bréfið sem ítrekar beiðnina, og undirritað er af Reyni Arngrímssyni formanni, hljómar svo:

 

„Læknafélag Íslands (LÍ) vísar til bréf frá 12. júní 2019 um mönnun heimilislækna á heilsugæslustöðvum, ekki síst á landsbyggðinni, sem fylgir hjálagt. Í bréfinu er lagt til að stjórnvöld setji á laggirnar vinnuhóp með fulltrúum stjórnvalda annars vegar og LÍ og Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) hins vegar, sem fái það verkefni að gera tillögur um endurskoðun á skipulagi, starfsaðstæðum og tilgreindum kjaraþátttum heilsugæslulækna á landsbyggðinni. Lagt er til að í hópnum verði þrír fulltrúar frá hvorum aðila, stjórnvöldum annars vegar og LÍ og FÍH hins vegar. 

Skemmst er frá því að segja að LÍ hafa engin viðbrögð borist vegna erindisins. Málefnið hefur orðið enn brýnna á því tæpa ári sem liðið er. Málefni þessa hóps hafa borið á góma á þeim fáum samninganefndarfundum sem haldnir hafa verið milli samninganefndar LÍ og SNR. Eins og kunnugt er hafa enn ekki náðst samningar við lækna. Kjarasamningir fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ rann út 28. febrúar 2019. 

LÍ telur mjög mikilvægt að þessum málum verði komið á hreyfingu. LÍ leyfir sér því að ítreka erindið og kalla eftir því að umræddur vinnuhópur verði skipaður hið allra fyrsta.“