Læknar í viðbragðsstöðu vegna COVID-19

Í ljósi yfirlýsingar Almannavarna um skilgreint neyðarástand og þróunar COVID-19 á Norður-Ítalíu, m.a. upplýsinga frá þarlendum gjörgæslulæknum um alvarleika sjúkdómsins og álag á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir, þar sem gjörgæsludeildir eru ýmist fullar eða við að fyllast er áréttað við lækna að Landlæknir hefur biðlað til lækna að fresta ferðalögum um sinn. LÍ brást við þessum skilaboðum landlæknis með því að afboða alla fyrirhugaða fundi á vegum félagsins meðan umfang og þróun faraldursins er metið.
 
Sú staða getur komið upp að læknar forfallist eða að álagið á heilbrigðiskerfið okkar verði svo mikið að fleiri læknar þurfi vegna álags að koma til starfa á Landspítala eða aðrar heilbrigðisstofnanir bæði til að sinna veirusjúkdómnum en einnig til að sinna annarri læknisþjónustu vegna þess viðbótarálags sem skapast getur af faraldrinum. Við því verða læknar sem stétt að vera viðbúin. Þannig gæti komið upp sú staða að leita þurfi til lækna sem starfa utan sjúkrahúsa eða hafa látið af störfum að koma til starfa á þeim vettvangi með litlum sem engum fyrirvara.
 
Þess vegna hefur LÍ ákveðið að útbúa lista yfir lækna sem eru tilbúnir til að vera á sérstökum viðbragðslista hjá embætti landlæknis. Þeir læknar sem eru tilbúnir til að taka þátt í þessu bakvarðaverkefni og eru reiðubúnir að bregðast við með stuttum fyrirvara eru beðnir að hafa samband við LÍ. Nöfnum þessara lækna verður komið á framfæri við embætti landlæknis og yfirlækna sem málið varðar. Landlæknir hefur verið upplýstur um þessa ákvörðun félagsins að útbúa svona viðbragðslista.