Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) leggst gegn því að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnarlyfjum. Þetta kom fram í Fréttablaðinu á laugardag.
Sagt er frá því að frumvarp heilbrigðisráðherra þess efnis hafi verið lögfest árið 2018 eftir margra ára baráttu fyrrnefndra stétta. Ein helsta ástæðan fyrir lagasetningunni sé að auka aðgengi kvenna að þjónustunni, sérstaklega ungra kvenna, og að nýta fagþekkingu stéttanna. Töluverður læknaskortur á landsbyggðinni spili einnig inn í.
Í Fréttablaðinu segir að nú standi til að útfæra frumvarpið með reglugerð, meðal annars hvaða lyfjum megi ávísa, skilyrði, námskröfur, gjaldtöku og eftirlit. „FÍFK hefur margsinnis sent inn umsagnir um málið, fyrst árið 2007. Félagið er mótfallið breytingunni og telur þær óþarfar. Telur félagið að um grundvallarbreytingu sé að ræða, hvað varðar réttindi og ábyrgð á lyfjaávísunum.“ Í nýjustu umsögninni kemur fram að nauðsynlegt sé að reglugerðin sé skýr fyrst lögin hafi þegar verið samþykkt. Bent er á annmarka.
„Að mati FÍFK er ekki skýrt í lögunum og þá þessari reglugerð, hver ber læknisfræðilega ábyrgð á lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra,“ segir í umsögninni.
Læknafélag Íslands tekur undir gagnrýni FÍFK og formaðurinn, Reynir Arngrímsson, segir að fleiri læknafélög geri það líka, til dæmis heimilislækna.
„Varðandi ábyrgðina þá stangast þetta á við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu þar sem segir að yfirlæknar beri faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyra,“ segir hann við Fréttablaðið. Störf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra heyri ekki undir yfirlækna samkvæmt þessu og yfirlæknar geti því ekki orðið bakhjarlar þeirra samkvæmt lögunum.
Umsagnir FÍFK og annarra eru hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga