Meðal merkustu framfara læknisfræðinnar er flutningur líffæris frá líffæragjafa í annan einstakling sem þjáist af alvarlegri líffærabilun. Meðferðin getur bjargað lífi sjúklinga eða bætt lífsgæði þeirra verulega og þrátt fyrir að eiga sér ekki langa sögu hefur hún verið í mikilli framþróun og er enn. Fjöldi þeirra sem þurfa á líffærum að halda eykst stöðugt en framboð hefur ekki aukist að sama skapi.1 Líffæragjöf frá látnum einstaklingi er möguleg ef hann hefur verið úrskurðaður látinn samkvæmt skilmerkjum heiladauða og ljóst er að heilastarfsemi hefur stöðvast á óafturkræfan hátt. Helstu orsakir þess eru heilablóðföll eða alvarlegar heilaskemmdir vegna höfuðáverka. Árið 1991 samþykkti Alþingi lög um að nema mætti brott líffæri úr líkama einstaklings að honum látnum ef hann hefði lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi en ef slík yfirlýsing væri ekki fyrir hendi þyrfti samþykki nánustu ættingja.2 Grunnur að þeim lögum var því „ætluð neitun“. Samtímis var sett fram reglugerð um hvernig úrskurða skyldi einstakling látinn samkvæmt heiladauðaskilmerkjum. Þessi lög gerðu líffæragjafir mögulegar hér á landi. Í slíkum tilfellum kemur teymi lækna og hjúkrunarfræðinga frá erlendu samningssjúkrahúsi og sér um brottnám líffæra en allur undirbúningur er í höndum íslensks heilbrigðisstarfsfólks. Líffæragjafir hafa að meðaltali verið um þrjár á ári (um 10 líffæragjafir á milljón íbúa),3 nokkru færri en í nágrannalöndum okkar. Fyrstu árin höfnuðu aðstandendur líffæragjöf í 40% tilfella en það hlutfall hefur farið lækkandi á síðustu árum og líffæragjöfum hefur fjölgað.
Sjá grein Kristins Sigvaldasonar í Læknablaðinu
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga