Markmiðin með nýju greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hafa náðst

Nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hefur aukið jöfnuð eins og að var stefnt. / Þak sem sett var á hámarksgreiðslur sjúklinga hefur varið þá sem veikastir eru fyrir miklum útgjöldum. / Útgjöld barnafjölskyldna hafa lækkað og hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu styrkst. / Heildarútgjöld sjúklinga í nýju kerfi eru um 1,5 milljarði króna lægri á ársgrundvelli en áður. / Útgjöld ríkisins til  heilbrigðisþjónustu hafa aukist umfram fjárheimildir, einkum vegna sjúkraþjálfunar.

Sjúkratryggingar Íslands tóku saman skýrslu að beiðni heilbrigðisráðherra til að draga saman reynsluna af greiðsluþátttökukerfinu ári eftir að það var tekið í notkun. Skoðað var hvort breytingar hafi orðið á notkun heilbrigðisþjónustunnar, áhrif kerfisins á útgjöld sjúklinga í samanburði við gamla kerfið og áhrif breytinganna á útgjöld sjúkratrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu. Breytingarnar sem tóku gildi 1. maí 2017 eru einhverjar þær mestu sem gerðar hafa verið á þessu sviði í áraraðir og því mikilvægt að greina hvernig til hefur tekist.

Hámarksgreiðsla sjúklings um 70.000 kr. á ári, í stað mörghundruð þúsunda króna áður

Árið 2016 greiddu rúmlega 15.500 einstaklingar meira en 70.000 kr. fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu, þar af greiddu rúmlega 800 einstaklingar yfir 200.000 kr. og nokkrir tugir enn meira. Hæsta greiðsla einstaklings í gamla kerfinu nam rúmum 400.000 kr. Eftir að nýja kerfið tók gildi í maí 2017 hefur enginn greitt meira en um 71.000 kr. á 12 mánuðum, fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið.

 

Sjá frétt á vef velferðarráðuneytisins