„Að taka fósturvísi og útsetja hann fyrir aðferðafræði sem við vitum ekki hvort er örugg, óháð siðferðilegum spurningum, er óverjandi tilraun á einstaklingi,“ segir Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, í Sunnudegi helgarblaði Morgunblaðsins um helgina.
Þar er sagt frá CRISPR/Cas9-erfðatækninni sem gerir mönnum kleift að breyta erfðaefni dýra, þar með talið manna, að vild. „Tæknin kemur frá bakteríum og er aðferð þeirra við að verjast árásum veira,“ segir Magnús í Morgunblaðinu.
„Kerfið kemur úr náttúrunni í allt öðrum tilgangi en við notum það,“ segir hann. „Þetta er í raun ónæmiskerfi bakteríunnar.“
Reykjavíkur-yfirlýsing Alþjóðafélags lækna vísar til þess að erfðarannsóknir í tengslum við heibrigðisþjónustu eigi fyrst og fremst að gera í þágu sjúklings sem verið er að prófa. Sjá yfirlýsinguna hér.
Magnús segir í viðtalinu að þessi nýja tækni sé siðferðislega alveg óumdeild þegar um sé að ræða breytingar á líkamsfrumum.
„Þarna erum við komin með aðferðafræði sem er markvissari og nákvæmari en gamla aðferðin. Það eina sem við erum að gera er að laga vefinn í sjúklingnum, við erum ekki að breyta erfðamengi hans í heild,“ segir Magnús. Í baráttu gegn sjúkdómum þar sem genalækningar hafa borið árangur á árum áður geti Crispr bætt um betur í náinni framtíð.
Tæknin geri hins vegar einnig mögulegt að breyta fósturvísi manns.
„Það eru flestir sammála um að í dag sé þetta svið sem við eigum ekki að fara inn á. Sumir segja að það gerist kannski í framtíðinni en við vitum allt of lítið um þessa aðferð svo það sé siðfræðilega verjandi að breyta erfðamengi sem flyst á milli kynslóða,“ segir Magnús.
Mynd/Skjáskot/Mbl.is
Sjá úrdrátt af viðtalinu við Magnús á mbl.is hér
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga