Mikil viðbrögð við viðtali við Má Kristjánsson í Kastljósi

Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, segir að hann sjái ekki í hverju mistök stjórnenda spítalans ættu að vera fólgin í tengslum við hópsýkinguna á Landakoti. Már var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi gærkvöldsins

Úttekt um hópsýkinguna sem kom upp á Landakoti í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins var kynnt föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn. Helstu frumniðurstöður úr skýrslu Lovísu Bjarkar Ólafsdóttur, sérfræðilæknis í smitsjúkdómum og sýklavörnum voru dregnar út á síðu Landspítala. Þar stendur:

„Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til þess að smit hafi borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum en einnig er talið hugsanlegt að sum smita á milli starfsmanna megi rekja til eðlilegra náinna samskipta vegna fjölskyldu-og vinatengsla utan vinnustaðar.“ Einnig:

„Talið er líklegt að nokkur smit hafi borist inn á Landakot á skömmum tíma. Það er mat skýrsluhöfundar að með tilliti til sýkingavarnasjónamiða sé ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti ófullnægjandi fyrir þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram og líklega megin orsök þeirrar miklu smitdreifingar sem varð.“

Smitin á Landakoti og andlátin í kjölfarið hafa leitt umræðuna að bágum húsakosti spítalans. Gunnar Skúli Ármansson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, segir í frétt á vef Fréttablaðsins ljóst að kjörnir fulltrúar hafi snúið blinda auganu að Landspítalanum og bágbornum húsnæðismálum spítalans. Því hafi farið sem fór á Landakoti. Fréttin er unnin úr orðum hans á Facebook. Sjá hér.

„Að ætlast til þess að við verjum kastala sem er löngu hruninn og heldir engu frá sér er senni­lega pólitík til að forða þeim frá á­byrgð sem bera á­byrgð á kastala­byggingunni,“ segir Gunnar Skúli.

Svandís­ Svavars­dótt­ir heilbrigðisráðherra segir á mbl.is víða í heil­brigðis­kerf­inu skap­ast aðstæður sem stand­ist ekki nú­tíma­gæðakröf­ur. Hún seg­ir að gera verði bet­ur í hús­næðismál­um inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins og að bygg­ing nýs Land­spít­ala megi ekki tefjast. Þá seg­ir hún aug­ljóst að gera megi bet­ur í smit­vörn­um á Landa­kots­spít­ala sem og ann­ars staðar. Sjá hér.

Mikil viðbrögð hafa verið vegna viðtalsins. Mörgum finnst fréttamaðurinn hafa farið offörum en aðrir verja störf hans. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður Velferðarráðs, skrifar á Facebook-síðu sína í gærkvöldi og Vísir gerir að frétt: „Ég er bæði orðlaus og rasandi eftir áhorf á Kastljós rétt í þessu. Þetta var held ég nýtt met.“ 

Vísir greinir frá því að fleiri blandi sér í umræðurnar við færslu Helgu Völu og virðist einnig ósáttir við framgöngu fréttamannsins. Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, tekur hins vegar upp hanskann fyrir hann:

„Nú skil ég ekki. Átti fréttamaðurinn að hætta að spyrja, þegar hann fékk engin svör í fyrsta, annað eða þriðja skipti? Var ekki eðlilegt að hann reyndi að fá svör? Ég vil gjarnan skilja hvernig berskjaldaðasti hópurinn virðist hafa verið minnst varinn,“ skrifar Ragnhildur.

Sveinn Geir Einarsson, yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, segir á Facebook-síðu sinni: „Maður þarf að beita sig hörku að verða ekki orðhvass, þegar fólk sem leggur sig allt fram að hjálpa öldruðu fólki sem veikinda vegna liggur á öldrunarstofnun, er sakað um mistök, nái stórhættuleg veira, eins og Covid er, útbreiðslu. Þetta er bara hætta sem við heilbrigðisstarfsfólk búum við daglega og ástæðan fyrir “umdeildum” ákvörðunum Almannavarna og ráðherra.“

Már sagði undir lok viðtalsins í Kastljósi: „Umræður í fjölmiðlum og þær fyrirspurnir sem við fáum eru hvort við séum ekki leið yfir því að þetta hafi gerst, hvort hafi orðið mistök. Við göngum ekki til vinnunnar með þann ásetning að gera mistök. Það ganga allir til vinnunnar inn í það umhverfi sem vinnustaðurinn skapar þér til þess að gera eins vel og þú getur.“

Mynd/Skjáskot/RÚV