Læknafélag Íslands ásamt Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Félag sjúkrahúslækna boða til opins fundar með Dr. Mads Gilbert í sal Læknafélags Íslands, Hlíðarsmára 8, fimmtudaginn 30. maí kl. 20:00.
Öll velkomin meðan húsrúm leyfir.
Dr. Mads Gilbert er margverðlaunaður norskur læknir og prófessor emeritus. Hann er sérfræðingur í svæfinga-og bráðalæknum við The Arctic University of Norway og yfirlæknir á bráðamóttökunni á háskólasjúkrahúsinu í Tromsö í Noregi (systurborg Gazaborgar frá 2002).
Frá árinu 1981 hefur Mads verið verið virkur í samstöðu með Palestínumönnum, sérstaklega á sviði heilbrigðismála og aðallega á Gaza síðustu tuttugu ár. Hann hefur einnig víðtæka reynslu af heilbrigðistengdum samstöðuverkefnum (e. Solidarity medicine project) í Búrma, Kambódíu, Angóla og Afganistan. Hann hefur skrifað bækur um áverkameðferð í dreifbýli suðursins (e. global south) ('Save Lives Save Limbs', Third World Network 2000), og um reynslu sína af klínískri vinnu á meðan árásir Ísraela á Gaza stóðu yfir: „Eyes on Gaza“ (2009, með Dr. Erik Fosse) og „Night in Gaza“ (2014).
Mads er virkur í vísindastarfi og hefur skrifað vísindagreinar um áverka (e. trauma) með palestínskum samstarfsmönnum á Gaza og um afleiðingar umsátursins og árása Ísraels á Gaza ásamt því skipulögðu ofbeldi sem á sér stað. Hann ferðast árlega til Gaza til að taka þátt í kennslu og þjálfun í bráðalækningum ásamt því að stunda rannsóknir og taka þátt í stefnumótun fyrir heilbrigðisþjónustu svæðisins, ávallt í nánu samstarfi við palestínska samstarfsaðila og heilbrigðisyfirvöld. Mads starfaði á Shifa sjúkrahúsinu á meðan á árásum Ísraelshers á Gaza stóð 2006, 2009, 2012 og 2014.
Eftir 7. október 2023 ferðaðist hann til Egyptalands með neyðarskurðteymi NORWAC til að vinna á Gaza, en Ísraelsher meinaði honum aðgang að Gaza.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga