Nýjan meðferðarkjarna á undan ófrystu kjöti

Stjórn Læknafélags Íslands segir mikilvægt að afnám á innfluttu, ófrystu kjöti taki ekki gildi fyrr en nýr meðferðarkjarni og bráðamóttaka Landspítalans, með fullnægjandi aðstöðu til að bregðast við útbreiðslu sýkingar af völdum fjöl-eða alónæmra baktería, hefur verið tekin notkun. Læknafélagið vill ekki að afnámið verði víðtækara en þörf krefur.
 

Þetta kemur fram í umsögn Læknafélagsins við frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðarráðherra, þar sem lagt er til að heimilt verði að flytja inn ófryst kjöt til landsins.  

Læknafélagið dregur enga dul á áhyggjur sínar af fyrirhuguðum innflutningi og biður stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Hætt sé við og næsta víst að afnám frystiskyldu auki líkurnar á því að fjölónæmar og nær alónæmar bakteríur berist hingað til lands „með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lýðheilsu, menn og bústofna.“

Læknafélagið bendir á að hlutfall þessara baktería hér á landi sé með því lægsta sem þekkist og útbreiðsla þeirra víðast hvar áhyggjuefni.  Læknafélagið nefnir sérstaklega viðkvæma sjúklingahópa sem séu með veiklað ónæmiskerfi af völdum sjúkdóma eða vegna meðferðar við alvarlegum sjúkdómum.

Sjá nánar frétt á ruv.is