Ráðherra ákvað að Krabbameinsfélagið fengi að starfa áfram þótt ljóst væri að gæðaskráning og gæðaeftirlit hjá Krabbameinsfélagi Íslands við skimanir væru ábótavant. Þetta sagði Tryggvi Björn Stefnánsson krabbameinsskurðlæknir í Kastljósi RÚV í gærkvöldi.
Krabbameinsfélagið endurskoðar nú 6.000 niðurstöður skimana eftir að í ljós kom að konur fengu rangar niðurstöður úr þeim. Kona með ólæknandi krabbamein leitar nú réttar síns. Fleiri hafa stigið fram. 45 konur hafa verið kallaðar inn í frekari skoðun í hjá félaginu í kjölfar endurskoðunarinnar. Frumubreytingar hefðu átt að vera greinanlegar í sýni sem var tekið 2018. Talið er að miðað við hlutfallið gætu konurnar verið allt að 150.
Tryggvi gerði svokallaðar kröfulýsingar árið 2017 fyrir Sjúkratryggingar Íslands. Kannað var hvort félagið væri fært um að skima fyrir krabbameini.
„Gæðaeftirlit og gæðaskráning var í algjörum molum hjá Krabbameinsfélaginu,“ sagði hann. Gagnagrunnurinn væri ófullnægjandi og ekkert gæðaeftirlitskerfi eins og segi að eigi að vera í Evrópuleiðbeiningum.
„Það áttuðu sig allir á því að þetta væri rétt,“ sagði Tryggvi í Kastljósi. Skoðað hafi verið tímabilið frá október 2017 til mars 2018.
„Þegar ný ríkisstjórn tekur við var ákveðið af ráðherra að Krabbameinsfélagið myndi fá að halda áfram þessari skimun þó að það væri búið að koma fram á þessum fundum okkar að það væri eiginlega algjört glapræði því krabbameinsfélagið gæti það ekki.“
Kastljósið ræddi í kjölfarið við Ágúst Inga Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands. „Eftir á að hyggja hefðum við sennilega átt að grípa til aðgerða fyrr,“ sagði hann. „Ábyrgðin liggur hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.“
Myndir/Skjáskot/RÚV/Efri Ágúst Ingi, neðri Tryggvi.
Sjá frétt Stöðvar 2 og Vísis hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga