Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins fjallar Svanur Sveinbjörnsson, formaður siðfræðiráðs LÍ um lífsiðfræði í leiðara. Þar segir m.a.:
“Lífsiðfræðin skoðar viðfangsefni sín jafnan eftir þremur megin grunngildum: frelsi, mannvirðingu og réttlæti. Í frelsinu er lögð áhersla á sjálfsákvörðunarrétt sjúklings en álitamál skapast um hann ef hæfið er skert. Í mannvirðingunni togast á griðaréttur sjúklings og verkskylda læknis eða gæðaréttur sjúklings og taumhaldsskylda læknis. Réttlætið býður okkur að veita öllum sömu þjónustu og jafnræði óháð stöðu. Svo kemur til lífpólitíkin eins og þegar læknar í hundraðatali studdu frumvarp um bann við umskurði sveinbarna. Í ljósi glæpsamlegrar hegðunar lækna víða um heim í meðferð aldraðra, fölsun rannsóknargagna, misnotkun tilraunameðferða, heilsuskrums og fleira hefur persónugerð og siðferðisþrek lækna farið undir smásjána. Víða er efnt til skoðunar á gæðum siðferðis og eflingar mannkostamenntunar í læknanámi.”
LÍ setur félagsmönnum siðareglur, Codex Ethicus – reglur um góða læknishætti sem reistar eru á Alþjóðasiðareglum lækna. Codex Ethicus er ætlaður öllum læknum sem starfa á Íslandi til leiðbeiningar og stuðnings í daglegu starfi, sem aðgengileg eru á heimasíðu félagsins lis.is.
Í tilfefni af 100 ára afmæli sínu heldur LÍ í samvinnu við Alþjóðasamtök lækna, World Medical Association ráðstefnu um lífsiðfræði í Hörpu dagana 2. – 4. október 2018. Nánari upplýsingar um hana er að finna á heimasíðu félagsins.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga