„Það má einfaldlega ekki lengur láta reka á reiðanum með sérfræðilæknisþjónustuna utan spítala. Hún hefur setið eftir og nú er hætt við að sjúklingarnir verði skildir eftir með sárt ennið, vegna heimatilbúins vanda sem í raun var aldrei til,“ segir Þórarinn Guðnason hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur í grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir þar því hafa verið ranglega haldið fram af yfirvöldum að starfsemi stofulækna aukist í sífellu og á hana verði að koma böndum. „Stjórnvöld hafa gengið hart fram í því að sauma að þjónustunni með neikvæðni og röngum upplýsingum og hafa ekki hlustað á álit og ráðgjöf lækna.“ Ferlið við gerð Heilbrigðisstefnu til 2030 og ráðgjöf kvensjúkdómalækna og rannsóknarlækna varðandi leghálsskimanir séu tvö skýr dæmi.
„Fleiri aðferðum hefur verið beitt eins og stöðvun á nýliðun stofulækna með ólögmætum hætti árin 2015-2018. Sú aðgerð var svo úrskurðuð ólögmæt í héraðsdómi og henni hnekkt,“ bendir hann á.
Einnig hafi stjórnvöld lagt stein í götu starfseminnar með langvarandi samningsleysi, en síðast var samið við stofulækna árið 2013 og enginn samningur hefur verið í gildi frá því í lok árs 2018. „Einingaverð situr eftir Einingaverð fyrir þjónustuna hefur dregist aftur úr verðlagi og hefur alls ekki haldið í við launavísitöluna. Þannig hefur einingaverð sérfræðilækna á 13 árum hækkað um 65% á meðan launavísitalan hefur hækkað um 134% eða tvöfalt meira. Þetta er ekki síst bagalegt þar sem 70% kostnaðar við rekstur læknastöðva er launakostnaður eins og víðast er í heilbrigðiskerfinu. Þetta vegur því þungt í rekstrinum.“
Hann segir rangt að starfsemi stofulækna aukist í sífellu. „Sannleikurinn er sá að jafnvel þegar enginn samningur er í gildi og allar bremsur og takmarkanir (um 23 atriði) samninga við Sjúkratryggingar Íslands eru horfnar þá heldur starfsemin áfram að dragast saman. Það er andhverfan við þá ógn sem stjórnvöld tala gjarnan um að stafi af umsvifum stofulækna. Sagan um „opna kranann“ sem sérfræðilæknar gangi í er skáldsaga með álíka mörgum sannleikskornum og finnast í gömlum Grimmsævintýrum.“
Hann segir að nú þegar enginn samningur hafi verið við sérfræðilækna í 2,5 ár og starfsemin hefur minnkað samfellt frá árinu 2016. „Slæmar afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda eru nú að koma fram. Versnandi aðgengi, lenging á biðlistum og aukið álag á aðra þætti kerfisins. Þetta ásamt óvissu um framtíð starfseminnar er meðal ástæðna þess að gamalgrónar læknastöðvar eru að loka.“
Augljóslega þurfi að semja við lækna og bæta við verulegum fjármunum í þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar rétt eins og fjármunir hafa verið auknir til heilsugæslu og sjúkrahúsa. „Þetta þarf að gera áður en fleiri læknastöðvar loka og áður en fleiri læknar gefast upp á stofurekstri og snúa sér að öðrum verkefnum.“
Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið
.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga