„Heilbrigðisráðherra virðist ekki skilja að reynsla sérfræðilækna er ómetanleg, hún verður ekki metin til fjár. Hún getur ekki skipulagt eða búið eitthvað kerfi í staðinn fyrir það. Utanspítalakerfi sem er rekið beint af sérfræðingum er afleiðing af því að spítalakerfið hefur ekki getað sinnt öllum,“ segir Ágúst Kárason, bæklunarlæknir og fulltrúi Íslands í Félagi evrópskra axla- og olnbogaskurðlækna.
„Þetta er búið að þróast í áratugi, en það er eins og það sé heilaþvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera ríkisrekið inni á spítölunum en misskilningurinn er sá að sérfræðikerfið, sem hefur alltaf verið með samning við Sjúkratryggingar, er hluti af opinbera kerfinu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjónustan á spítölunum verður verri og það myndast alvöru tvöfalt kerfi,“ segir Ágúst.
Hann hitti blaðamann ásamt kollega sínum, Ragnari Jónssyni bæklunarskurðlækni og þáverandi formanni Íslenska bæklunarlæknafélagsins og núverandi forseta Norrænu bæklunarskurðlækna samtaka til þess að ræða stöðuna sem upp er komin í þjóðfélaginu varðandi heilbrigðiskerfið en heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur beitt sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og komið í veg fyrir að sérfræðilæknar geti opnað stofu utan spítala.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga