Samtök yfirlækna vilja óháða úttekt á legskimunum úr landi

Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli alls leghálsskimunarmálsins innan stjórnsýslunnar. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér föstudaginn 26. febrúar.

Signý Vala Sveinsdóttir, formaður samtakanna, segir það sýna þungann í málinu hve margir læknar og samtök þeirra tjái sig um þá ákvörðun að flytja leghálsskimanirnar úr landi. „Okkur yfirlæknum á Landspítala finnst málið ekki aðeins snúa að skimun leghálssýnanna heldur einnig um önnur rannsóknarstörf sem unnin eru hér á landi.“

Signý segir fjölmörgum rannsóknum sinnt hér á landi. „Maður spyr sig: Er eitthvað fleira sem yfirvöld treysta ekki íslenskum rannsóknarstofum til að gera? Hverju eigum við von á nú í framhaldinu?“ Hún spyr hvort yfirvöld sjái sér hag í að senda fleiri verkþætti úr landi?

„Við í Samtökum yfirlækna á Landspítala upplifum þetta skref sem ákveðna niðurlægingu fyrir læknisfræði á Íslandi og vantraust á íslenskar rannsóknarstofur.“

Mynd/Skjáskot/Landspítali

 

Svona hljóðar ályktunin í heild sinni:

Ályktun Samtaka yfirlækna á Landspítala (SYL) um breytingar á skipulagi skimana fyrir leghálskrabbameini

Nýlega tóku íslensk heilbrigðisyfirvöld þá ákvörðun að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði fluttar frá Íslandi til rannsóknastofu í Danmörku. Sú ákvörðun var tekin þvert á nýleg álit skimunarráðs, embættis landlæknis, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og verkefnastjórnar um framkvæmd breytinga á krabbameinsskimunum.

Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) telja að það sé með ólíkindum að yfirvöld hafi hunsað álit áðurnefndra fagaðila og tekið þá ákvörðun að nýta ekki fullkominn nýjan búnað og faglega þekkingu á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til HPV-greininga, sem og greiningarhæfi og faglega sérþekkingu meinafræðideildar til að sinna þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu. Greining á leghálsskimunarsýnum er algeng rannsókn og rannsóknadeildum Landspítalans er vel treystandi til að gera slíkar rannsóknir á sama hátt og aðrar flóknar rannsóknir. Gæði og öryggi slíkra rannsókna yrði að sjálfsögðu tryggt á sama hátt og fyrir aðrar rannsóknir sem framkvæmdar eru innan veggja Landspítalans.

Spurningar vakna um hvað liggi til grundvallar þessari ákvörðun svo sem um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknastofum, ákvarðanir innan stjórnsýslunnar, sem eru ekki í samræmi við faglega ráðgjöf eða hvort aðrir hagsmunir ráði för. Samtök yfirlækna á Landspítala fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferli alls málsins innan stjórnsýslunnar.