"Ef ekkert verður að gert stefnir hratt í að ákveðin byggðarlög verði læknislaus innan fárra ára." Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. Hún segir að heilbrigðisþjónustan hangi víða á bláþræði vegna manneklu og fjöldi lækna sé að komast á eftirlaunaaldur og ekki sé að sjá að einhver komi í þeirra stað.
„Það sem mér fannst verst var að sjá að við erum ekki vel sett neins staðar þegar kemur að mönnun,“ sagði Steinunn um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þegar hún ræddi við Fréttablaðið.
Hún sagðist sjálf starfa á Landspítalanum og hafi gert alla sína starfsævi hér á landi. „Maður heldur alltaf að við séum á botninum varðandi mönnun og starfsumhverfi, en svo kemur í ljós að við erum öll á sama báti. Og það virðist vera sem enginn sé að koma til að bjarga okkur,“ sagði hún en hún lauk nýlega hringferð um landið þar sem hún heimsótti heilbrigðisstofnanir og ræddi við lækna.
Sjá frétt á dv.is
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga