Burtséð frá því hvað býr að baki túlkun BSRB á tölum úr viðhorfskönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi taka þær af öll tvímæli um það að verulegur meirihluti svarenda styðji eitthvert form af sjálfstæðum rekstri læknastofa. Að halda þveröfugu fram, og byggja það á svörum um spítalaþjónustu, eru vægast sagt óvönduð vinnubrögð, segja þeir Ragnar Freyr Ingvarsson gigtarlæknir og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur í grein í Fréttablaðinu í dag.
„Heilbrigðisþjónustan er enn í dag nánast öll fjármögnuð af hinu opinbera úr sameiginlegum tryggingasjóði landsmanna. Um þann grundvallarþátt hefur þjóðin verið algjörlega sammála alla tíð og vonandi er að hún verði ekki hrakin inn í það tvöfalda heilbrigðiskerfi sem því miður blasir við ef ekki verður tafarlaust gripið í taumana.“
Þeir myndlíkja rökstuðning BSRB á könnuninni við sögu af Emmu öfugsnúnu. „Sjálfmiðaður áhugi BSRB á að fjölga félagsmönnum sínum og öfugsnúnar túlkanir bandalagsins á viðhorfskönnun mega aldrei ráða för í vexti og viðgangi heilbrigðiskerfisins okkar sem landsmenn hafa af samheldni og metnaði byggt upp á löngum tíma.“
Mynd/Skjáskot/Fréttablaðið
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga