Sigurður Guðmundsson á Spotify


Yfirvöld taka heilbrigðismálin ekki nægilega föstum tökum, segir Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrum landlæknir, þegar hann sest niður fyrstur lækna í hljóðver fyrir Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins. Hann gerir upp starfsferil sinn og ræðir lífið og tilveruna.

„Það blasa risavandamál við.“ Hann nefnir fíknivandann sem vaxi og loftslagsmál sem muni breyta sjúkdómum hér á norðurhjaranum. Hann vill öflugri heilsugæslu og bendir á að heilbrigðiskerfið sé ódýrara hér en í mörgum OECD-ríkjum. Skortur á fé sé þó ekki eini vandinn. „Okkur gengur ekki nógu vel að ganga í takt að settu marki,“ segir Sigurður og fer yfir atriði sem hugsa þurfi um til að ná árangri.

Sigurður ræðir einnig lífið eftir læknisstarfið. „Ég þarf ekki að bæta við CV-ið. Það er algjör óþarfi. Það les það enginn lengur,“ segir hann í gamansömum tóni. „Markmiðið er að njóta lífsins.“ Hann sleppir þó ekki alveg hendinni af læknisfræðinni heldur kennir við Háskólann og situr í ýmsum nefndum og ráðum.

Nálgast má nýjan hlaðvarpsþátt Læknablaðsins á Spotify en einnig Soundcloud og síðu blaðsins. Þar ræðir þessi fyrrum landlæknir bakgrunn sinn, persónulega sigra, námsferilinn, framann, samhygðina og heilbrigðispólitíkina. Hann segir HIV-veiruna fyrir aldamót hafa, þegar á heildina er litið, verið mest krefjandi á ferlinum.

„Ég held að við höfum enn ekki unnið úr því sem samfélag hvernig við tókum á þessu fólki sem fékk þennan skelfilega sjúkdóm,“ segir hann og ræðir málin frekar í þættinum. „Þetta er eitthvað sem við sem fólk þurfum að gera upp og læra af.“

Nálgast má þáttinn á Spotify.

https://open.spotify.com/episode/7skOJmwLXO7leDyfwBoc4S?si=Z2BDkOv_Qq-9RZrYSHo84g