"Sjúklingar eru ekkert að hverfa"

Tveir sérfræðilæknar, sem báðir fengu synjun um aðild að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands fyrir sérfræðilækna, segja núverandi fyrirkomulag bitna á sjúklingum og koma í veg fyrir nýliðun innan læknastéttarinnar, þrátt fyrir alvarlegan læknaskort.

Þá sýnir þróun síðustu ára fram á að sérfræðilæknar, sem náð hafa 60 ára aldri, vinna sífellt hærra hlutfall af heildarvinnu innan stéttarinnar. Læknafélag Íslands hefur lýst yfir þungum áhyggjum af ástandinu.

Árið 2016 unnu eldri sérfræðilæknar á stofum, 60 ára og eldri, rúm 44,4 prósent af heildarvinnu allra sérfræðilækna. Kristján Guðmundsson, læknir og formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur, segir þetta gamla þróun, sem byrjað hafi fyrir löngu síðan, og fyrirséð að mikla endurnýjun þurfi á næstu árum.

Til samanburðar unnu sérfræðilæknar á þessum aldri, þ.e. 60 ára og eldri, 18,7 prósent af heildarverkeiningum sérfræðilækna árið 2007. Árið 2012 var hlutfallið svo komið upp í 33 prósent. Íslenskir læknar hafa þungar áhyggjur af ástandinu, og þá sérstaklega sérfræðilæknar sem hafa hug á að snúa aftur heim að loknu námi.

 

Sjá frétt á visir.is