Sjúklingar greiði meira ekki minna - Árni Tómas í Morgunblaðinu

Árni Tómas Ragnarsson læknir gagnrýnir í grein í Morgunblaðinu í dag að Svandís Svavarsdóttir tjái sig ekki um sjálfstætt starfandi sérfræðilækna í grein sinni í sama blaði frá 6. mars.

„Reyndar hefur hún áður lýst yfir frati á starfsemi sérfræðilæknanna eins og nánasti aðstoðarmaður hennar, Birgir Jakobsson, f.v. landlæknir hefur líka gert. Ástæðulaust er að elta ólar við nánast hatursfulla afstöðu þeirra tveggja í garð sérfræðilæknanna. Þau hafa oft rætt þetta áður og rök þeirra hrakin,“ segir hann í greininni.

Hann bendir á að þótt sjúklingar greiði nú minna fyrir komu í heilsugæslu greiði þeir meira en áður þurfi þeir að leita sér sérfræðiaðstoðar. Þing og ríkisstjórn hafi beitt sér fyrir því.

„Þessi breyting var bæði aðför að sérfræðilæknunum og að skjólstæðingum þeirra, en sú aðför tókst ekki, sérfræðilæknisþjónustan heldur áfram að blómstra þótt Svandís vilji hana feiga og vilji helst ekki niðurgreiða hana nema að takmörkuðu leyti. Orð hennar og heilindi um að dregið verði úr greiðsluþátttöku sjúklinga verða að skoðast í því ljósi.“

Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið