Skipulagsbreytingar á Læknafélagi Íslands

Á aðalfundi Læknafélags Íslands 2017 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum þess sem fela í sér eftirfarandi skipulagsbreytingar hjá félaginu. Í þeim felst m.a. að læknar eru framvegis félagsmenn í Læknafélagi Íslands (LÍ) og velja síðan aðildarfélag til að tilheyra. Svæðafélögin eru ekki lengur aðildarfélög. Aðildarfélög LÍ eru framvegis fjögur:

1. Félag almennra lækna (FAL). Félagsmenn eru aðallega kandídatar og læknar sem ekki hafa lokið sérfræðinámi. 
2. Félag íslenskra heimilislækna (FÍH). Félagsmenn eru aðallega læknar sem hafa heimilislækningar að aðalstarfi.
                               3. Félag sjúkrahúslækna (FSL). Félagsmenn eru aðallega læknar sem starfa á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum.
                               4. Læknafélag Reykjavíkur (LR). Félagsmenn eru aðallega læknar sem starfa að hluta eða öllu leyti sjálfstætt.

Þetta hefur í för með sér að í stað svæðafélaganna munu aðildarfélögin fjögur tilnefna fulltrúa til setu á aðalfundi LÍ í hlutfalli við félagatölu og skipa tvo menn hvert í 9 manna stjórn LÍ. Skal annar þeirra vera formaður aðildarfélagsins og hinn kjörinn aðalfundi þess. Formaður LÍ er hinsvegar kjörinn í alsherjarkosningu allra félagsmanna til tveggja ára í senn. Formenn og fulltrúar aðlildarfélaganna munu í fyrsta sinn taka sæti í stjórn LÍ að afloknum aðalfundi í haust ásamt Reyni Arngrímssyni, núverandi formanni Lí sem var kjörinn formaður í fyrstu alherjar formannskosningu félagsins á sl. ári og leiðir skipulagsbreytingar ásamt núverandi stjórn félagsins.
Breytt skipulag mun taka gildi að fullu að afloknum aðalfundi Lí sem haldinn verður í nóvember 2018.