Það varð landsmönnum til happs hversu vel Íslensk erfðagreining brást við þegar tækjabúnaður veirudeildar Landspítala brást. Þetta kemur fram í grein eftir Önnu Margréti Halldórsdóttur, lækni í Blóðbankanum og starfandi formann læknaráðs Landspítala, í Morgunblaðinu í dag.
Anna bendir á nauðsyn þess að ráðast í úrbætur á veirufræðideildinni. COVID-19-faraldurinn sýni skýrt mikilvægi klínískra rannsóknadeilda. Án þeirra geti háskólasjúkrahús ekki sinnt þjónustu við sjúklinga. „Það eru því miður a.m.k. fimm ár þangað til nýr Landspítali verður tekinn í notkun svo huga þarf að tímabundnum lausnum.“ Hún segir einnig að huga verði að því að mennta sérhæft starfsfólk til að vinna á deildunum.
Greinin hljóðar svo:
Styrkja þarf rannsóknardeildir Landspítala: Lærdómur af COVID-19
„COVID-19 fór eins og hvirfilbylur yfir heiminn á fyrri hluta ársins og enn sér ekki fyrir endann á faraldrinum. SARS-Cov-19-veiran varð miðpunktur athygli og fréttir af faraldsfræði urðu fastur liður í fjölmiðlum. Eins og kunnugt er þurfti heilbrigðisþjónustan með Landspítalann í broddi fylkingar að bregðast skjótt við til að geta sinnt smituðum einstaklingum, sumum bráðveikum.
COVID-19-göngudeildin var stofnuð, gjörgæslan efld, legudeildum breytt o.s.frv. Ein deild spítalans sem sérstaklega mikið mæddi á var sýkla- og veirufræðideildin en starfsfólk hennar sýndi bæði snarræði og úthald við að þróa ný greiningarpróf og vinna langa daga við greiningu sýna. Þetta var krefjandi verkefni fyrir deild sem hefur lengi búið við þröngan kost hvað varðar tækjabúnað og mönnun en samkvæmt Arthuri Löve yfirlækni veirufræðideildar voru tækin orðin „ gömul, þreytt og bilanagjörn og það var fljótt ljóst að það yrði flöskuhálsinn “. Vegna tækjabilana var leitað til Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) sem gat komið til hjálpar enda vel búin með tækjabúnað og þjálfað starfsfólk. Það er ekki gefið að geta leitað til fyrirtækis á borð við ÍE en það varð landsmönnum til happs hversu vel ÍE brást við. Í skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum kom fram að nauðsynlegt væri að ráðast í úrbætur á veirufræðideildinni enda væri núverandi afkastageta deildarinnar, tækjakostur, aðstaða og mönnun veikleiki í sóttvörnum og almannavörnum landsins með tilliti til nýrrar bylgju COVID-19 eða faraldra annarra smitsjúkdóma.
Þessi atburðarás sýnir fram á mikilvægi klínískra rannsóknardeilda Landspítalans enda eru þetta yfirleitt einu sérhæfðu rannsóknardeildirnar á sínu sviði á Íslandi. Rannsóknardeildirnar sem í núgildandi skipuriti spítalans tilheyra svokölluðum rannsóknarkjarna eru auk sýkla- og veirufræðideildar eftirfarandi: Klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði og vefjameinafræði auk Blóðbanka og myndgreiningardeildar. Rannsóknardeildirnar eru yfirleitt ekki áberandi út á við í starfsemi spítalans. COVID-19-faraldurinn sýnir þó skýrt hversu mikilvæg þessi starfsemi er en án hennar getur háskólasjúkrahús ekki sinnt þjónustu við sjúklinga. Klínískar rannsóknarstofur gera hvers kyns greiningarpróf á sjúklingasýnum sem gefa nauðsynlegar upplýsingar fyrir greiningu, meðhöndlun og forvarnir sjúkdóma. Til þess að geta sinnt hlutverki sínu þurfa rannsóknardeildir að búa yfir þrennu: Góðu húsnæði, nægum tækjabúnaði og vel þjálfuðu starfsfólki. Fram kom í áhættumati farsóttarnefndar Landspítala og heildarmati Landspítala frá Páli Matthíassyni forstjóra spítalans fyrir skýrslu um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum að styrkja þyrfti innviði Landspítala og þá sérstaklega aðstöðu, tækjakost og mönnun veirufræðihluta sýkla- og veirufræðideildar Landspítala, enda væri afkastageta deildarinnar hvað varðar PCR-greiningar takmörkuð. Þetta mat má væntanlega yfirfæra á aðrar rannsóknardeildir spítalans.
Húsnæðismál rannsóknardeilda Landspítalans eru sérstaklega bágborin enda eru deildirnar dreifðar á margar byggingar með tilheyrandi óhagræði. Sumar þessara bygginga eru í slæmu ástandi og þarfnast kostnaðarsamra endurbóta, til að mynda húsnæði veirufræðideildar í Ármúla. Þetta stendur til bóta með nýjum Landspítala þar sem allar rannsóknardeildirnar munu sameinast í sérstöku húsnæði rannsóknarkjarnans. Það eru því miður a.m.k. fimm ár þangað til nýr Landspítali verður tekinn í notkun svo huga þarf að tímabundnum lausnum. Annað atriðið er tækjabúnaður en vegna örrar þróunar og aukinnar þekkingar er sífelld þörf á endurnýjun tækja. Einnig má nefna að opinberar reglur um innkaup krefjast þess að dýrari tæki fari í útboð með tilheyrandi vinnu og umsýslu. Tækjamál eru ekki aðeins ófullnægjandi á veirufræðideildinni heldur er staðan svipuð á ýmsum öðrum rannsóknardeildum. Húsnæðismál torvelda samnýtingu tækja milli deilda en nauðsynlegt er að allar deildir séu vel tækjum búnar til þess að eðlileg fagleg framþróun geti átt sér stað á hverju sviði. Síðast en ekki síst má nefna mönnun rannsóknardeilda en til þess að tryggja nægilega faglega sérþekkingu þarf tiltekinn fjölda vel menntaðs starfsfólks, þar á meðal lækna, lífeindafræðinga og annarra stétta. Mikilvægt er að stöðugt sé hugað að nægilegri mönnun enda er meðalaldur margra stétta á rannsóknarstofum nú í hærra lagi. Langan tíma tekur að mennta sérhæft starfsfólk á hverju sviði, til að mynda lækna.
Klínískar rannsóknarstofur eru ómissandi hlekkur í keðju heilbrigðisþjónustunnar og engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Rannsóknardeildir Landspítala hafa allar forsendur til þess að sinna verkefnum framtíðarinnar, hvort sem er vegna COVID-19 eða annarra áskorana. Til að svo verði þarf hins vegar að ráðast í nauðsynlegar úrbætur hvað varðar húsnæði, tækjakost og mannafla.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga