„Ég vann í tíu ár í Svíðþjóð við barnasvæfingar- og gjörgæslu. Þar hugleiddi ég aldrei að hætta. Það hefur ítrekað gerst á þessum þremur árum sem ég hef verið hér heima,“ segir Theodór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítala. „Ég hef skrifað uppsagnabréfið tvisvar,“ segir hann þegar hann lýsir áhrifum af álaginu sem er á svæfingalækna spítalans.
Svæfingalæknar rituðu yfirstjórn spítalans bréf í síðustu viku og biðluðu til hennar að núverandi vaktaskipulagi yrði breytt. Það sé úrelt miðað við umfang starfseminnar og gæðakröfur. Þungum áhættuaðgerðum sé sinnt af lækni sem hafi verið við vinnu í yfir 12 klukkustundir. Það eigi til að mynda við um bráðar kviðarholsopnanir hjá fjölveikum eldri sjúklingum.
Læknarnir biðja um að fyrirkomulagið verði eins og það var í COVID-19. Yfirboðarar hafa gefið þeim þau svör að meta þurfi kostnaðinn af beiðninni áður en svör fáist. Verið sé að endurskoða vaktafyrirkomulag inni á spítalanum og að beiðni svæfingalækna verði skoðuð þar.
Sveinn Geir Einarsson, yfirlæknir á Landspítalanum, segir álagið á svæfingalæknum Landspítala áhyggjuefni. „Álag á vöktum hefur aukist verulega síðustu árin.“ Hann segir það varla bjóðandi nokkrum lækni að vinna fulla dagvinnu og taka í kjölfarið við bakvakt frá klukkan 15.30 til 07.30 næsta morgun þar sem unnið sé á skurðstofum.
„Á Landspítalanum er veikasta fólk landsins til meðferðar, ýmist fjölveikt og langveikt eða akút veikt með lífshótandi uppákomur. Við erum líka með fæðingadeildina á Hringbraut þar sem hlutirnir geta snúist mjög hratt og hver mínúta getur skipt sköpum bæði fyrir móður og barn. Þegar álag er orðið svona mikið, hvort heldur er á læknum eða öðru starfsfólki sem fæst við manneskjur, er hættan á mistökum orðin óþægilega mikil með tilheyrandi afleiðingum. Við erum sett í aðstæður sem við getum ekki stjórnað,“ segir hann.
„Mér þykir afar vænt um Landspítalann og þoli illa þegar hann er talaður niður. Þótt ég sé yfirlæknir og eigi ekki að kvarta opinberlega, þá hef ég áhyggjur af álaginu á vöktunum. Við þurfum því að breyta fyrirkomulagi bakvaktanna. Staðarvaktin er meira eða minna bundin yfir hundveikum sjúklingum gjörgæslunnar og annar illa því sem er að gerast þar fyrir utan,“ segir hann.
„Þetta snýst í huga mínum ekki um launakröfur heldur öryggi skjólstæðinga og starfsfólks. Þetta snýst líka um að fá unga sérfræðinga til starfa og að þeir gefist ekki upp. Fólk er sem betur fer farið að gera aðrar kröfur en kannski voru þegar ég sjálfur var yngri,“ segir Sveinn.
„Lífið er meira en bara vinnan og hætta á málsóknum orðin mun meiri en var eins og hefur sýnt sig.“
Theódór talar einnig um hvað vaktafyrirkomulagið sé stíft en einnig að vinni svæfingalæknar yfirvinnu eigi þeir að taka frí á móti, sem ekki gefist tími til. Árlega sé því yfirvinnan gerð upp á dagtaxta. „Við gefum vinnuna stóra hluta tímans.“
Theódór tekur undir orð Sveins um að hér sé ekki rætt um laun heldur álag sem sé slíkt að lærðir svæfingalæknar sækist ekki eftir stöðum á spítalanum. Svæfingalæknar á bakvakt þurfi að dekka bæði spítalann í Fossvogi og við Hringbraut. Ekkert megi bregða útaf svo það gangi upp.
Sveinn lýsir sem dæmi dagvinnu og bakvöktum sem hann hefur verið á síðustu tvær vikurnar. „Ég var á bakvakt Hvítasunnuhelgina, föstudag- til sunnudagsmorguns. Þá var ég mættur kl. 07 á föstudagsmorgninum og komst heim kl. 02.30 aðfaranótt laugardagsins. Ég var mættur aftur kl. 09 á laugardagsmorgninum og var til kl. 16.30. Kallaður inn kl. 20.30 og fór heim kl. 01 aðfaranótt sunnudagsins. Kallaður aftur inn kl. 07 á sunnudagsmorgninum vegna verkefnis sem þurfti að fara með inn í Fossvog og fylgja eftir þar og var til kl. 12 að hádegi,“ segir hann.
„Síðan var ég á vaktinni aftur á miðvikudeginum og vann þá dagvinnuna til kl. 15.30 að ég tók við bakvaktinni. Ég fór heim kl. 21 og var aftur kallaður inn kl. 22.30 og komst heim kl. 03 aðfaranótt fimmtudagsins. Þetta er ekkert einsdæmi hvorki fyrir mig né aðra kollega mína. Svona eru bara þessar vaktir,“ segir hann.
„Ég er orðinn 63 ára gamall og finn að þetta tekur orðið meira á en áður og ég heyri meira að segja frá yngri kollegum að þeim finnst nóg um,“ segir Sveinn eftir þessa maraþon vinnutörn. Hann sinni vaktavinnu þrátt fyrir að vera kominn yfir 55 árin, sem gefi svæfingalæknum tækifæri til að segja sig frá vöktum. Það geri hann til að minnka álagið samstarfsmenn sína.
„Það sem er þó kannski hvað óeðlilegast er að maður var orðinn svo samdauna þessu að manni fannst þetta eiginlega eðlilegt,“ segir Sveinn að lokum og biðlar til yfirmanna að breyta þessu sem allra fyrst.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir skrifar.
Mynd af Landspítala/Læknablaðið
Mynd af Sveini Geir/Landspítali
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga