Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líkur á að bóluefni við kórónuveirunni verði komið í dreifingu fyrir mitt næsta ár. Þetta kemur fram á Vísi.
Á Vísi er sagt frá því að orð Kára um að herða tökin á landamærum Íslands vegna baráttunnar við kórónuveirufaraldurinn hafi vakið mikla athygli.
Kári sagði að íslenskir stjórnmálamenn stæðu frammi fyrir tveimur valkostum. Annar væri að halda fyrirkomulaginu óbreyttu og berjast reglulega við hópsýkingar. Hinn að herða tökin á landamærunum og takast á við hrun í ferðaþjónustunni. Annað væri ekki í boði fyrr en bóluefni kæmist á markað.
„Ég hef verið að fylgjast með þeim vísindagreinum sem hafa verið birtar. Ég hef verið í töluvert miklum samskiptum við menn í nokkrum lyfjafyrirtækjum sem eru að vinna við að búa til bóluefni. Ég held að það sé engin sérstök bjartsýni að reikna með að það verði komið bóluefni í dreifingu fyrir mitt næsta ár,“ segir Kári.
Kórónuveiran var í brennidepli fjölmiðla um helgina. Sagt er frá því á Mbl.is að forsætisráðherra hafi fundaði með sóttvarnayfirvöldum um helgina. Þar hafi framtíðarútfærsla á samfélagslegum takmörkunum vegna annarrar bylgju kórónuveirufaraldursins verið rædd.
Núgildandi ráðstafanir renni út 13. ágúst; og samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins er líklegra að tilkynnt verði um framhaldið á morgun en í dag.
Mynd/Skjáskot/Vísir
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga