Telur stjórnvöld brjóta á rétti sjúklinga til sjúkratrygginga

Stjórnvöld brjóta á réttindum sjúklinga með því að taka ekki þátt í kostnaði þeirra við læknisþjónustu segir sérfræðilæknir í taugalækningum sem opnaði stofu í dag án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Hundrað manns hafa nú þegar bókað tíma hjá lækninum og greiða tæpar tuttugu þúsund krónur fyrir heimsóknina.

Um er að ræða Önnu Björnsdóttur sem lauk sérfræðinámi í Parkinsons-sjúkdómnum í fyrra. Velferðarráðuneytið hafnaði umsókn hennar um aðild að rammasamningi sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands í sumar þrátt fyrir að skort sé á taugalæknum á Íslandi. Áður en Anna opnaði stofuna sína í dag leitaði hún á ný eftir svörum yfirvalda.

„Ráðuneytið stöðvaði þá, bæði í að taka mig inn á samning þrátt fyrir augljósa þörf sem landlæknir er búinn að greina og burtséð frá því neita þeir líka að niðurgreiða þann kostnað sem sjúklingarnar beri af heimsókninni til mín,“ segir Anna. Hundrað manns hafa nú þegar pantað tíma hjá Önnu sem er verulega ósátt við stöðuna. Hún segir óásættanlegt að Sjúkratryggingar taki ekki þátt í kostnaði sjúklinga sinna og að það sé brot á réttindum þeirra til sjúkratrygginga.

 

Sjá frétt og viðtal við Önnu hér