Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir félagsmenn taka undir orð Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítalans um að ekki sé hægt að reka spítalann áfram með sambærilegum hætti og gert hefur verið.
Enn fremur segir hún að ákveðið fyrirhyggjuleysi hafi orðið til þess að kerfi spítalans höndli ekki vaxandi álag.
„Ég held að það liggi algjörlega í augum uppi að það þurfi að fjármagna þennan spítala svo miklu betur, en þetta er margþættur vandi sem spítalinn glímir við."
Steinunn segir að mannekla á spítalanum skýrist annars vegar af því að læknanemar séu of fáir hér á landi og hins vegar af því að spítalinn bjóði hvorki þau kjör sem sérfræðilæknar geti sætt sig við né nógu gott starfsumhverfi.
60 pláss eru í læknadeild hérlendis, en flestir læknar sem útskrifast hérlendis fara í sérnám í útlöndum og hefur verið erfitt að fá það fólk til að starfa hér á landi.
„Þetta snýst ekki bara um peninga, heldur álag sem við finnum fyrir alls staðar þar sem læknar starfa. Allir starfsmöguleikar hérlendis bjóða upp á eitthvað svipað og þess vegna leita læknar út fyrir landsteinana."
Hún segir að það þurfi að fjölga í læknadeild hérlendis og vill fá í það minnsta 90 nemendur á ári til að standa undir þeirri eftirspurn sem er eftir starfskröftum í framtíðinni.
Sjá viðtalið við Steinunni á mbl.is
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga