Þingheimur bregst við orðum Bertrands um geðheilsu barna

„Við höfum ekki verið að standa okkur vel í að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra miklu fyrr þegar á þarf að halda,” sagði Ásmundur Einar Daðasson, félagsmálaráðherra, á Alþingi í dag. Hann svaraði þar Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnum. Ágúst Ólafur sagði að setja þyrfti geðheilsu barna í forgang og losna við biðlista.

Þingheimur brást þar við fregnum af slæmu ástandi unglinga sem Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala, sagði frá í Læknablaðinu og greip athygli RÚV sem sagði að biðlistum hafa lengst um 80% á einu ári. Ágúst Ólafur sagði ráðherra verða að beita sér í málinu.

Ásmundur Einar sagði ríkið hafa sett 600 milljónir í geðheilbrigðismál barna- og unglinga nú í heimsfaraldrinum. Vandinn væri ekki aðeins fjárhagslegur heldur skorti einnig fólk. „Við erum að ráðast í stærstu kerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í í málefnum bara.”

Bertand sagði í Læknablaðinu börn og unglingar glíma við meiri tilfinningavanda en áður. Hann sagði að tölur bentu til þess að tíðni sjálfsvíga barna og ungmenna á aldrinum 15-19 ára sé enn há hér á landi og meiri en í öðrum löndum Evrópu.

„Kerfið okkar hefði átt að vera betur í stakk búið til að takast á við þessa miklu aukningu sem verður núna. Við vorum ekki tilbúin enda höfðum við verið undir miklu álagi í alltof langan tíma,“ segir Bertrand í Læknablaðinu.

Mynd/Læknablaðið

  • Viðtalið við Bertrand í Læknablaðinu hér