Þörf á rannsóknarnefnd atvika í heilbrigðisþjónustu

Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands, kallar eftir að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd sem skoðar alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, til að heilbrigðiskerfið dragi lærdóm af þeim. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig.
 
Í hverri viku berst að minnsta kosti ein tilkynning um alvarlegt atvik til Landlæknis, en það eru atvik sem geta valdið varanlegum örkumlum sjúklings eða dauða.

„ Í rauninni þá vantar okkur regluverk í kringum þessi atvik þannig að það sé tryggt að þetta sé meðhöndlað með faglegum hætti, til þess að við drögum lærdóm sem við getum síðan nýtt okkur áfram til þess að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. „Þannig að við köllum eftir rannsóknarnefnd fyrir alvarleg atvik í heilbrigðiskerfinu, svolítið hliðstæða rannsóknarnefndar samgönguslysa.“