Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.

Hér á eftir verður fjallað um upphafi að samstarfi þyrlusveitarinnar og lækna.

Læknaflug og læknavakt

Að öllum líkindum var fyrsta sjúkraflug TF-GNA farið föstudaginn 6. október 1972, þegar sjúklingur var sóttur í Dalasýslu og fluttur til Akraness, til aðhlynningar. Þriðjudaginn 13. nóvember 1973 var farið sjúkraflug frá Reykjavík áleiðis að togaranum Þorkeli mána sem var úti fyrir Vestmannaeyjum. Komið var við á lóð Borgarspítalans og sóttir tveir læknar; Ólafur Jónsson og Frosti Sigurjónsson, en Ólafur var frumkvöðull í stofnun læknavaktar vegna sjúkraflugs. Þyrlunni var snúið við í þessu tilfelli áður en til hífingar kom þar sem sjúklingurinn lést en aðkoma lækna að sjúkrafluginu átti eftir að aukast, enda mikill áhugi meðal þeirra og skilningur á mikilvægi þessa samstarfs. Í kjölfarið á sjúkraflugi til Þorlákshafnar vegna skipverja föstudaginn 15. febrúar 1974 var haldin fyrsta hífingaræfingin með lækna og fór hún fram á Sandskeiði með þátttöku læknanna Ólafs Ingibergssonar og nafna hans Jónssonar. Auk lækna var hjúkrunarfræðingur með í sjúkraflugi í einhver skipti, hið fyrsta sunnudaginn 4. ágúst. Þá voru sóttir þrír sjúklingar með reykeitrun í Landmannalaugar, samkvæmt dagbók þyrlunnar. Með í för voru Ólafur Jónsson, læknir á Borgarspítalanum og Lilja Harðardóttir hjúkrunarfræðingur. Reyndar sagði í fjölmiðlum að bíll hefði orðið fastur í á og allir fjórir, sem í honum voru, fengið kolsýringseitrun en þrír af þeim hefðu verið fluttir með þyrlunni.

Sunnudaginn 11. ágúst 1974 var farið í sjúkraflug frá Reykjavík og var Ólafur Ingibjörnsson læknir með í för ásamt hjúkrunarfræðingi. Flogið var yfir togarann Baldur EA 124 frá Dalvík þar sem tveir skipverjar höfðu slasast alvarlega. Læknir var látinn síga í fyrsta sinn úr þyrlunni um borð í skip í þessu tilfelli. Lagt var upp frá Reykjavík kl. 13:00 og Ólafur seig niður í togarann kl. 14:07. Rúmum hálftíma síðar var annar hinna slösuðu hífður um borð í þyrluna og læknirinn þar á eftir, og svo haldið til Reykjavíkur. Hinn sjómaðurinn er talinn hafa látist samstundis í slysinu og varð lík hans eftir um borð í skipinu. Þremur dögum síðar var farið í stutt kynningarflug og hífingar með lækna á Reykjavíkurflugvelli. Auk Ólafs Ingibjörnssonar og Ólafs Jónssonar, tóku Kristján Róbertsson, Guðmundur Harri Guðmundsson og Skúli Johnsen borgarlæknir þátt í æfingunni. Daginn eftir var aftur haldið til æfinga og var nú æft sig niður um borð í varðskipið Ægi á ytri höfninni í Reykjavík. Í stað borgarlæknis komu nú tveir aðrir læknar, þeir Ólafur Þ. Jónsson og Guðmundur Bjarnason.

Þátttaka lækna í útköllum vegna sjúkra og slasaðra var ekki tíð á þessum árum, og byggðist ekki á formlegu samstarfi né samningi milli Borgarspítalans og Landhelgisgæslunnar. Útkall læknis byggði á því að einhver væri tiltækur með litlum fyrirvara og gæti gripið með sér þann búnað sem var nærhendis. Það var ekki fyrr en árið 1987 að samningur, sem gerður var milli þessara stofnana, tryggði að læknir yrði eftirleiðis tiltækur í útköll alla daga ársins, allan sólarhringinn. Nokkurn tíma fram að því hafði lítill hópur unglækna boðið sig fram í sjálfboðavinnu með þyrluáhöfninni. Ítarleg frásögn eins þeirra; Ólafs Jónssonar, um upphaf og þróun samstarfs flugdeildar Landhelgisgæslunnar og lækna Borgarspítalans er að finna í bókinni.