Læknafélag Íslands telur réttlátt að heilbrigðisfólki verði umbunað sérstaklega fyrir störf í návígi við kórónuveiruna, eins og gert var í fyrstu bylgju faraldursins. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, telur mikilvægt að slík umbun komi til. Hann tekur þar með undir orð formanna félaga hjúkrunarfræðinga og og sjúkraliða í Speglinum, fréttaþætti Ríkisútvarpsins.
„Lí telur jafnframt mikilvægt að stjórnvöld bregðist við ákalli lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um bætta tryggingavernd þessara starfshópa og að COVID-sýking í starfi falli undir vinnuslys en ekki venjuleg veikindi,“ segir Reynir.
Í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var bent á að stjórnvöld hafi ákveðið í fyrstu bylgjunni að einum milljarði króna yrði varið til álagsgreiðslna til handa heilbrigðisstarfsmönnum. „Greiðsla til einstaklings gat numið allt að 250 þúsund krónum en þær fór eftir álagi og smithættu. 670 milljónir runnu til starfsmanna Landspítalans, 80 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri og sama upphæð til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. 170 milljónum var svo skipt á milli annarra heilbrigðisstofnana,“ segir í frétt Spegilsins.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, telur réttlátt að heilbrigðisstarfsmenn fái álagsgreiðslur: „Já ég er á þeirri skoðun að sjúkraliðar sem eru að leggja á sig þessa gríðarlega miklu vinnu og vinna undir miklu álagi hvern dag sem þeir mæta í vinnu fái það metið að verðleikum og fái umbun fyrir fyrir þá vinnu,“ segir hún við RÚV.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, tekur þar undir orð Söndru: „Já, ég tel það þó að það sé ekki eitthvað sem við verðum að skoða hér og nú í dag enda erum við að takast á við mjög alvarlega stöðu sem kom upp á síðustu fjórum fimm dögum. Þá er þetta bara annar eins tími og var í vor.“
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga