Undrast að vera einir sviptir fastri yfirvinnu

Læknar á Landspítalanum eru mjög ósáttir við að laun þeirra lækki í niðurskurðaraðgerðum spítalans. Landspítalinn sagði upp óunninni yfirvinnu lækna sem hluta af aðgerðum til að draga úr kostnaði við rekstur sjúkrahússins.
 

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 að mikil óánægja væri vegna þessa. Félagið hefur mótmælt því að hluta ráðningarsamninga lækna sé sagt upp. Hann segir ólaunaða yfirvinnu í raun rangnefni. „Henni er ætlað að greiða fyrir tilfallandi yfirvinnu með jöfnum hætti sem þarf ekki að vera að tímamæla.“ Þetta eigi til dæmis við þegar læknir sé með veikan sjúkling og geti ekki farið, skurðlæknir sé í aðgerð eða læknir að innrita sjúkling fram yfir lok vaktar eða dagvinnu. „Í dag er þetta ekki greitt. Það fæst ekki greidd yfirvinna samkvæmt stimpilmælingunni. Þá hefur verið gripið til þess að hafa fasta yfirvinnu sem tekur á þessu að meðaltali.“

Reynir gagnrýnir að uppsögn óunninnar yfirvinnu nái bara til lækna. Samkvæmt nýjustu tölum sem Læknafélagið hefur hafi yfirstjórn haft tvöfalda óunna yfirvinnu á við lækna. „Við teljum mjög eðlilegt að starfsmenn í framlínu eins og læknar og hjúkrunarfræðingar fái þessa föstu yfirvinnu greidda því að þeir geta ekki hlaupið í burtu en það er mjög sérkennilegt að yfirstjórn spítalans þurfi að gera þetta og í raun og veru skammti sér 400 milljónir í fasta yfirvinnu.“

Reynir sagði uppsögn óunninnar yfirvinnu hafa slæm áhrif á starfsanda. Hann sagðist telja að flestir láti þetta yfir sig ganga en taldi að einhverjir kynnu að hætta.

Hlusta einnig á viðtal við Reyni á Rás 2   velja 01:00:33 fyrir viðtalið