Velferðarnefnd kallaði til gesti á fund sinn í dag þar sem rædd var staða heilbrigðiskerfisins. Guðrún Ása Björnsdóttir, formaður Félags almennra lækna, segir að fundurinn hafi verið mjög góður og gott að leitað sé til lækna til að heyra þeirra skoðun á stöðunni.
„Það er jákvætt að velferðarnefnd hafi kallað til sín lækna héðan og þaðan og af gólfinu til þess að koma sínum skoðunum og sjónarmiðum á framfæri,“ segir Guðrún Ása í samtali við Fréttablaðið.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, gagnrýndi orðaval lækna í umræðunni um Landspítalann á fundi Læknaráðs í gær og sagði að orðræða þeirra væri skaðleg. Kallaði hún eftir því að læknar stæðu betur með sér í leit að lausnum. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segist í samtali við Fréttablaðið ekki skilja hvað Svandísi gekk til með orðum sínum.
Aðspurð hvort ummæli Svandísar hafi verið rædd á fundinum segist Guðrún ekki vilja tjá sig nákvæmlega um efni fundarins.
„Ég ætla ekkert að tjá mig nákvæmlega um innihald fundarins. Það er verið að leita lausna og tilgangurinn var aðallega að heyra í okkur út af ástandinu, ekki endilega að fara út í mikla pólitík.“
Már Kristjánsson, yfirlæknir, sagði í grein í Læknablaðinu að stórslys væri í aðsigi á bráðamóttökunni ef ekkert yrði að gert og gagnrýndi þar aðgerðaleysi í málefnum bráðadeildarinnar.
Hún segir að bráðmóttakan og Landspítalinn í heild hafi verið rædd og segir hún að þeir heilbrigðisstarfsmenn sem hafi komið á fundin hafi getað gert grein fyrir því ástandi sem þar ríki og reynslu þeirra sem þar starfi og koma á framfæri lausnum.
Guðrún telur fundinn hafa verið jákvæður, samhljómur hafi verið á meðal nefndarmanna um að bæta þyrfti úr málum og að hún sé bjartsýn á framhaldið.
„Á maður ekki alltaf að vera bjartsýnn? Dropinn holar steininn.“
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga