Velkomin á Læknadaga 2021 - Ávarp Reynis Arngrímssonar formanns

„Ágætu þátttakendur. Velkomin á Læknadaga 2021,“ sagði Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, þegar hann setti Læknadaga formlega. Erindi hans fer hér á eftir:

„Saga Læknadaga spannar hjartnær aldarfjórðung. Rekja má sögu þeirra aftur til ársins 1995. Þá hóf Námskeiðs- og fræðslunefnd LÍ, LR og framhaldsmenntunarráðs læknadeildar Háskóla Íslands að standa fyrir vikulöngum námskeiðum í janúarmánuði. Janúarnámskeiðin fengu ekkert ákveðið nafn fyrr en árið 2000 að farið var að kalla þau Læknadaga.i Læknadagar hafa þróast og þroskast og eru nú í umsjá Fræðslustofnunar lækna sem komð var á fót á aðalfundi LÍ 1997.

*****

Fræðslustarf lækna er þó mun eldra og hefur gengið á ýmsu og vitnar forveri minn Sigurbjörn Sveinsson fv. formaður Læknafélags Íslands til þess í grein í Læknablaðinu á aldarafmæli félagsins 2018. Þar rifjar hann upp:

„Læknafélagið Eir er stofnað í Reykjavík 1943 í því skyni að „stofna til erindaflutnings og umræðufunda um læknisfræði“ meðal annars. Þetta viðfangsefni verður höfuðinntak félagsins í áranna rás. Látum Óskar Þórðarson hafa orðið í Læknablaðinu 1963: „Fyrsta árið vorum við á hrakningum með fundarstaði. Flestir fundir voru haldnir það árið að Hótel Ritz á Reykjavíkurflugvelli, en þar voru aðstæður heldur lélegar. Einn fundur var haldinn í Breiðfirðingabúð, sem einnig var kallað Ungverjaland á þeim árum. En þar var illa vært sökum drykkjuskapar og háreysti Ungverjanna, og þegar nokkrir þeirra komu inn í fundarherbergið og báðu um orðið,

þá varð að flytja fundinn í annan enda á húsinu. Í árslok 1948 lagði dr. Helgi Tómasson Eir inn á Klepp, og hefur félagið síðan verið þar til húsa með fundi sína og unað vel hag sínum ...“7

Og Sigurbjörn heldur áfram:

„En auðvitað skín sól Læknafélags Reykjavíkur (LR) og síðar Læknafélags Íslands skærast þegar til fræðslu og símenntunar lækna er litið. Árni Björnsson læknir tekur saman fróðlegt ágrip um sögu LR á 90 ára afmæli þess 1999. Árni telur að LR hafi frá upphafi verið helsti vettvangur viðhaldsmenntunar lækna á Íslandi. Allt til 1979 voru fræðsluerindi fastir liðir á flestum fundum LR en lögðust af með vaxandi fræðslustarfsemi innan sjúkrahúsanna í Reykjavík. Árni segir: „Árið 1942 var reynt að stofna til námskeiðs fyrir lækna á vegum LR. Þá var skipuð þriggja manna nefnd til að sjá um undirbúning og framkvæmd á læknanámskeiði í Reykjavík. Áhugi á námskeiðinu var þó ekki meiri en svo að einungis tveir læknar mættu utan af landi en enginn læknir í Reykjavík gaf sig fram. Námskeiðið féll því niður og það var ekki fyrr en 1972 sem námskeiðs- og fræðslunefnd var endurvakin.“8

*****

Gæði og þjónusta sem hægt er að veita í heilbrigðiskerfinu byggist að miklum hluta á þekkingu og færni lækna sem þar starfa á hverjum tíma. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða verkefni í heilsugæslu, við göngu- og dagdeildaþjónustu og hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum eða meðferð sem krefst innlagnar á sjúkrahús. Það er á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda heilbrigðisstofnana í

umboði heilbrigðisráðherra að tryggja aðgengi að læknisþjónustunni og skilvirkni hennar með umgjörð og aðstöðu sem hæfir starfseminni. Skilgreining og innleiðing frekari gæðavísa en nú tíðkast og skráningu á frammistöðu kerfisins skiptir máli og þarf að efla.

En lykilatriði er jafnframt og ekki síðra að læknar verða að geta haldið við þekkingu sinni, fylgst með tækniframförum og tileinkað sér nýjungar jafnóðum. Því má halda fram að grundvöllur gæða kerfisins byggist á stöðugri endurnýjun og viðhaldi þekkingar.

Víða erlendis eru fagfélög lækna og heilbrigðisyfirvöld farin að gera strangari kröfur um símenntun lækna og í sumum tilfellum er það orðið skilyrði fyrir viðhaldi á starfsréttindum t.d. í sérgreinum læknisfræðinnar. Þessi þróun sækir fram og mikilvægt að LÍ taki afstöðu í þessum málum og gangi fram fyrir skjöldu í skilgreiningu á þessu verkefni.

Í skoðanakönnun LÍ 2018 kom fram að margir læknar (66%) hafa ekki tækifæri til til þess að sinna viðhaldsmenntun í vinnutíma og er það áhyggjuefni. Niðurstöðurnar sýndu að 20% lækna nýta námsleyfi sitt skv. kjarasamningi að fullu og innan við helmingur gerir það að hluta. Aðeins 28% segjast geta náð 1-2 klst. í viðhaldsmenntun á viku og aðeins 5% hafa lengri tíma aflögu. Tæplega 20% svöruðu að þeir ættu ekki rétt á greiddu námsleyfi. Mikilvægt er að hafa í huga að viðhaldsmenntun hefst um leið og embættisprófi er lokið og læknisstarfið hefst. Menntun læknis lýkur aldrei, heldur er ævilöng skuldbinding um stöðuga starfsþjálfun og starfsþróun.

Mikilvægt er að átta sig á hversvegna aðeins svo lítill hundraðshluti lækna fullnýtir kjarasamningsbundin réttindi til viðhaldsmenntunar. Er það umgjörðin á vinnustaðnum, álag og mannekkla sem er hindrandi, viðhorf yfirmanna eða hafa ákvæði um réttindin dregist aftur úr t.d. raunkostnaður sem fylgir því að sækja endurmenntunarnámskeið erlendis?

Það er áhyggjuefni fyrir heilbrigðiskerfið og hlýtur að kalla á að þeir sem bera ábyrgð á gæðum þjónustunnar og móta heilbrigðisstefnuna skoði hvaða úrbóta er þörf til að tryggja að læknar ástundi og geti nýtt sér möguleika til viðhalds þekkingar og starfsþróunar.

LÍ setti á laggirnar vinnuhóp um starfsþróun og símenntun. Í hópnum sitja læknar úr stærstu sérgreinum læknisfræðinnar. Vinnuhópnum er ætlað að gera tillögur til stjórnar LÍ um hvernig bæta megi úr og efla símenntun lækna. Í áðurnefndir skoðanakönnun kom fram að fleiri en færri (68%) telja að LÍ eigi að setja lágmarksviðmið varðandi viðhaldsmenntun sérfræðilækna og halda eigi utan um skráninguna.

Fræðslustarfsemi LÍ er töluverð. LÍ gefur út Læknablaðið og á þess vegum heldur Fræðslustofnun árlega Læknadaga. Á þessum grunni er mikilvægt að byggja og efla faghluta Læknafélagsins. Meðal hlutverka Fræðslustofnunar í framtíðinni gæti verið að halda utan um skráningu símenntunar lækna og standa fyrir frekara fræðslustarfi í samstarfi við innlenda og erlenda aðila s.s. sérgreinafélög.

*****

Nú kallar samtíminn á breytt skipulag og framkvæmd Læknadaga vegna sóttvarnatilmæla og samkomutakmarkana.

Í ár er stígið nýtt skref í sögu Læknadaga og fræðslu- og símenntunarmálum lækna. Við búum við samkomutakmarkanir og er Læknadögum nú í fyrsta sinn streymt á öldum ljósvakans til lækna og samstarfsfólks. Við höfum ekki látið deigan síga og stígum ölduna. Dagskráin varir í 5 daga frá morgni til kvölds, spannar um 30 málþing og 15 hádegisfundi með framlagi um 130 lækna og annrra fræðimanna. Læknadagar hafa ekki síður haft mikla félagslega þýðingu fyrir lækna í gegnum tíðina og þar hafa læknar náð að rækta vináttu sín á milli, rifjað upp liðnar stundir og kynnst nýjum félögum í læknastétt. Læknadögum hefur lokið með vel sóttri árshátíð. Í ár fellur hún niður en Læknadagar verða ekki síður gleðidagar en fræðadagar. Góðir félagar okkar undir leiðsögn Michaels V. Clausen læknis hafa undirbúið listviðburði og skemmtiefni sem send verða út samhliða fræðadagskránni.

Allt frá upphafi Læknadaga hefur Margrét Aðalsteinsdóttir haldið utan um skipulag og verið burðarstólpi undirbúnings þeirra og er það enn svo í dag. Ég vil að þessu tilefni biðja Margréti að koma hingað og taka á móti þakklætisvotti fyrir hennar ómetanlega framlag í rúman aldarfjórðung.

Um leið og ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plógin við að gera Læknadaga að raunveruleika í ár, stjórn Fræðslustofnunar, fræðimönnum og gleðigjöfum, skipuleggjendum og tæknifólki í Hörpu og hjá Advania og starfsfólki LÍ óska félögum mínum í Læknafélagi Íslands og öðrum gestum til hamingju með Læknadaga 2021 og vona að þeir njóti hátíðarinnar.“

 

  • i Stefán B. Matthíasson. 100. árgangur Læknablaðsins: Tilurð Læknadaga. Læknablaðið 2014; 100, 34-37.