Árið 2023 hefur á margan hátt verið ár stórra tíðinda þar sem hoggið hefur verið á hnúta og erfiðum málum landað eftir áralangt þóf.
Samið við LR
Fyrst ber að nefna samning Læknafélags Reykjavíkur (LR) við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem undirritaður var þann 27. júní sl. eftir tæplega fjögurra og hálfs árs samningsleysi. Í samningnum felst stóraukið aðgengi almennings að þjónustu sérgreinalækna á viðráðanlegu verði. Auk þess skapar samningurinn grundvöll fyrir áframhaldandi samráð milli LR og SÍ um þróun þjónustunnar í takt við eftirspurn og framfarir í læknavísindum. Vonir eru bundnar við að þessi nýi og traustari grundvöllur samninga milli LR og SÍ muni tryggja aukna nýliðun í hópi sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, en þar gætir víða mikils og vaxandi skorts.
Refsiábyrgð heilbrigðisstofnana
Önnur gleðitíðindi bárust í lok árs þegar frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana varð að lögum. Kallað hefur verið eftir þessum lagabreytingum allt frá árinu 2015 þegar starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins lagði fram skýrslu um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu. Þar er m.a. lagt til að heilbrigðisstofnanir geti sætt refsiábyrgð í stað einstakra heilbrigðisstarfsmanna. Oftast verða alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu vegna raðar samverkandi kerfislægra þátta, en ekki vegna einbeitts brotavilja einstakra heilbrigðisstarfsmanna. Því er löngu tímabært að lögfesta ábyrgð stofnanna sjálfra í slíkum tilfellum. Heilbrigðisráðherra á hrós skilið fyrir að hafa beitt sér fyrir þessari lagabreytingu, enda um gríðarlegt réttlætismál fyrir heilbrigðisstarfsmenn að ræða.
Læknafélag Íslands (LÍ) og fleiri félög heilbrigðisstarfsmanna hafa einnig kallað eftir stofnun sjálfstæðrar rannsóknarnefndar vegna alvarlegra atvika í heilbrigðiskerfinu, að fyrirmynd rannsóknarnefndar samgönguslysa. Eru vonir bundnar við að hún verði sett á laggirnar í framhaldinu.
Læknaskortur
Vaxandi álag og mannekla innan læknastéttarinnar hafa sem fyrr verið til umræðu á árinu. Það duga engin vettlingatök ef sporna á við þeirri óheillaþróun og nauðsynlegt að ráðast á vandann frá mörgum hliðum. LÍ hefur þegar unnið mannaflaspá fyrir lækna á Íslandi fram til ársins 2040. Miðað við spá LÍ þarf að fjölga læknanemum við Háskóla Íslands (HÍ) töluvert ef landið á ekki að búa við sívaxandi læknaskort á næstu árum.
Í byrjun desember bárust þær fréttir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, hafi undirritað samkomulag um sókn í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum. Í samkomulaginu felst m.a. fjölgun læknanema úr 60 í 75 á árinu 2024 og upp í 90 í áföngum fram til ársins 2028. LÍ fagnar þessari nauðsynlegu fjölgun læknanema og bindur vonir við að að læknadeild HÍ muni styrkjast í tengslum við hana. Verkefnið stendur og fellur með framkvæmd og fjármögnun, en tryggja þarf áframhaldandi gæði og fjölbreytileika verknáms. Einnig er ljóst að aðrar stofnanir en Landspítali þurfa að koma þar að borðinu í auknum mæli. Daníel Pálsson formaður Félags læknanema skrifaði grein um málið í 2. tbl. Læknablaðsins á árinu þar sem hann tíundar forsendur þess að vel megi til takast við fjölgun læknanema. Hvatar og skilgreindur vinnutími fyrir sérnámslækna og sérfræðilækna til að sinna kennslu verða að vera til staðar. Semja þarf í auknum mæli við stofnanir á og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið um að taka við læknanemum í verknám. Eins þarf að semja um verknám læknanema við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna.
Starfsaðstæður lækna og stytting dagvinnu
Fjölgun læknanema er eingöngu ein af mörgum aðgerðum sem ráðast þarf í til að sporna við læknaskortinum. Einnig þarf að bæta starfsaðstæður og kjör útskrifaðra lækna og tryggja að Ísland sé samkeppnishæft við nágrannalöndin um þessa mikilvægu starfskrafta. Læknar, líkt og fleiri hópar, hafa dregist verulega aftur úr í launaþróun undanfarinna ára. Vandséð er að þjóðarsátt náist á vinnumarkaði án þess að til komi leiðrétting á þeirri þróun.
Jafnvægi vinnu og einkalífs er mikilvægt læknum, eins og öðrum. Þrátt fyrir það hefur ríkið verið ófáanlegt til að semja við lækna um styttingu vinnuvikunnar. Læknar eru ásamt lyfjafræðingum einu heilbrigðisstarfsmennirnir sem enn búa við 40 klukkustunda dagvinnu. Allir aðrir heilbrigðisstarfsmenn njóta 36 klukkustunda vinnuviku í dagvinnu. Krafa um styttingu dagvinnu lækna hlýtur því að verða ofarlega á blaði í komandi kjaraviðræðum lækna og ríkisins.
Eins þarf að viðurkenna vinnu lækna að heiman sem raunverulega vinnu. Símtöl lækna á gæsluvöktum eru skýrt dæmi um þetta. Greiða ætti sérstaklega fyrir þau og eins ættu símtöl að nóttu til að teljast rof á hvíld.
Í kjölfar COVID faraldursins hafa stórir hópar vinnandi fólks haft sveigjanleika til að vinna að heiman. Það er því fráleitt að á sama tíma sé vinna lækna að heiman ekki viðurkennd og greidd sem raunveruleg vinna. Síðast en ekki síst þarf að koma betur til móts við þá lækna sem starfa á vanmönnuðum starfsstöðvum, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Þar hefur vinnuálag og binding lengi verið úr öllu hófi án þess að til hafi komið sérstakar kjarabætur eða aukinn frítökuréttur. Úrbætur á þessu sviði eru bráðnauðsynlegar og aðkallandi ef takast á að viðhalda öruggri læknamönnun um land allt.
Ekki dugar að horfa á kjaramálin ein og sér heldur þarf einnig að bæta starfsaðstæður lækna almennt, nýta tíma þeirra vel og tryggja að stéttin hafi svigrúm til að sinna meginhlutverki sínu, þ.e. að lækna og líkna, kenna og stunda vísindi. Eins þarf að gera stjórnendum í hópi lækna kleift að sinna ótruflað stjórnunarhlutverki sínu. LÍ hefur ítrekað bent á leiðir til að ná þessu markmiði. Nauðsynlegt er að stjórnvöld séu í þéttu samráði við lækna um framkvæmdina. Ýmsum verkum mætti mögulega útvista til annarra heilbrigðisstétta. Þó aldrei beinni læknisþjónustu eins og ávísunum lyfja, líkt og lagt var til í nýlegum drögum að frumvarpi til breytinga á lyfjalögum og LÍ gerði alvarlegar athugasemdir við. Koma þarf tillögum starfshóps um vottorðamál í framkvæmd. Einnig er löngu tímabært að draga úr álagi á heimilislækna af völdum Heilsuveru. Mikið hefur verið rætt og ritað á undanförnum misserum um það viðbótarálag sem Heilsuvera hefur valdið heimilislæknum. Nú er kominn tími á aðgerðir.
Rafrænar úrlausnir
Umbylting á rafrænu starfsumhverfi lækna er einnig nauðsynleg til að bæta starfsaðstæður. Úrbætur á rafræna sviðinu munu tvímælalaust auka öryggi sjúklinga og draga úr sóun, því gríðarlegur vinnusparnaður getur verið fólginn í góðum rafrænum lausnum. LÍ setti á árinu á laggirnar starfshóp um rafræna sjúkraskrá. Hópurinn mun móta stefnu félagsins varðandi rafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu. LÍ gerir ríkulegar kröfur um samráð annarra hagaðila við starfshópinn og félagið um þróun rafrænna lausna til framtíðar. Eitt af mörgum stórum málum á þeim vettvangi er aðgangur almennings að eigin sjúkraskrám. Mikilvægt er að þar verði faglega staðið að málum strax frá upphafi. Eins liggur fyrir áframhaldandi krafa um að heilbrigðisráðherra geri sjúkraskrár aðgengilegar öllum þjónustuveitendum á landinu í gegnum einn miðlægan, óháðan gagnagrunn.
Framtíð læknisþjónustu
Mönnunarmál lækna hafa víða verið ofarlega á blaði á árinu. Síðla sumars urðu þau gleðitíðindi að settur var á laggirnar starfshópur um framtíð læknisþjónustu á Íslandi undir forystu Ólafs Baldurssonar lungnalæknis. Auk hans sitja í hópnum fulltrúar LÍ, embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins. Stofnun starfshópsins er liður í kjarasamningi milli LÍ og ríkisins sem undirritaður var í júní sl. Hlutverk hópsins er fyrst og fremst að skilgreina hversu marga lækna þurfi til að sinna þeirri læknisþjónustu sem heilbrigðiskerfinu er ætlað að veita, að teknu tilliti til eðlilegts vinnuálags og lögbundinnar vinnuverndar. Þegar þessi skilgreining liggur fyrir mun hún varpa betra ljósi á manneklu á einstaka starfsstöðvum og stofnunum og þannig leiða til markvissari aðgerða til að mæta henni. Mönnunarskilgreiningar munu einnig gera mögulegt að umbuna sérstaklega þeim læknum sem vinna verk margra vegna skorts á samstarfslæknum, líkt og þekkist víða annars staðar.
Hlutverk hópsins er einnig að horfa til framtíðar læknisþjónustu á Íslandi og hvernig aðgengi að fullkomnustu þjónustu verði tryggt öllum landsmönnum. Þetta er eftir því sem ég best veit í fyrsta sinn sem ráðist hefur verið í vinnu af þessu tagi á vegum heilbrigðisráðuneytisins. LÍ bindur miklar vonir við vinnu þessa hóps og væntir þess að breið sátt náist um mönnunarviðmið lækna og uppbyggingu læknisþjónustu um allt land.
Ýmsar ályktanir aðalfundar LÍ
LÍ hefur beitt sér á mörgum fleiri sviðum á árinu. Ekki er svigrúm til að tíunda það allt hér. Þó ber að nefna að aðalfundur LÍ í október sendi frá sér fjölmargar ályktanir sem aðgengilegar eru á vef félagsins, www.lis.is. Þar á meðal skoraði aðalfundurinn á alþingismenn að minnka skaðann af áfengisneyslu, sem sé forgangsverkefni í lýðheilsu Íslendinga. Þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Eins skoraði aðalfundurinn á heilbrigðisráðherra og þingmenn að beita sér fyrir að fella allar vörur sem innihalda nikótín, aðrar en lyf, undir tóbaksvarnarlög. Það styrki umgjörð sölu þessara vara og minnki líkur á að fyrri árangur í tóbaksvörnum glatist.
Heimsóknir um landið
Framkvæmdastjórn félagsins hélt áfram ferð sinni um landið og heimsótti lækna í Vestmannaeyjum, Borgarnesi, á Akranesi og Akureyri á árinu. Heimsóknirnar halda áfram á nýju ári enda hafa þær reynst ómetanleg uppspretta góðra hugmynda að úrbótum og mikilvægum baráttumálum sem félagið mun halda á lofti.
Starfsáætlanir sérfræðilækna á Landspítala
Innleiðing er hafin á starfsáætlunum sérfræðilækna á Landspítala, en LÍ hefur verið virkur þátttakandi í þeirri vinnu. Starfsáætlununum er ætlað að skilgreina betur eðlilegt álag í starfi lækna og eðlilegt magn og eðli verkefna, með það fyrir augum að sérþekking lækna nýtist sem best. Einnig er gert ráð fyrir helguðum tíma lækna til starfsþróunar, kennslu, handleiðslu og vísindastarfa. Vonir standa til að starfsáætlanirnar nýtist víðar í kerfinu í framhaldinu, ef vel tekst til með innleiðinguna á Landspítala.
Innra starf LÍ
Stjórnir Fræðslustofnunar, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs og Orlofssjóðs, auk annarra nefnda og ráða félagsins, hafa sem fyrr unnið ötult og óeigingjarnt starf á árinu. Veglegir Læknadagar standa fyrir dyrum í upphafi nýs árs þar sem Félag sjúkrahúslækna mun m.a. standa fyrir málþingum um opin vinnurými og sóun í heilbrigðiskerfinu, hvoru tveggja málefni sem brenna mjög á stéttinni. Árshátíðin sem haldin var í upphafi árs var gríðarlega vel heppnuð og verður aftur á sínum stað, laugardaginn 20. janúar 2024. Fulltrúar LÍ hafa sótt fundi World Medical Association (WMA), The Standing Committee of European Doctors (CPME) og European Union of Medical Specialists (UEMS) á árinu og var ég kjörin formaður siðfræðinefndar WMA í apríl s.l. Nefndin mun takast á við mörg mikilvæg verkefni á komandi misserum þar sem hæst ber endurskoðun á Helsinki yfirlýsingunni um vísindarannsóknir á mönnum.
Lokaorð
Ég vil þakka stjórn LÍ, starfsmönnum félagsins og þeim fjölmörgu læknum sem lagt hafa hönd á plóg í starfi félagsins á árinu kærlega fyrir þeirra ómetanlega framlag. Félagið okkar varð 105 ára í janúar s.l. Það stendur styrkum fótum, þökk sé sterkri félagsvitund lækna og vilja þeirra til að láta rödd sína heyrast og beita sér fyrir því að heilbrigðisþjónusta hérlendis sé í takt við það sem best gerist í heiminum. Það eru forréttindi að fá að berjast fyrir bættri heilsu og lífsgæðum landsmanna allra og verkefnin óþrjótandi.
Ég sendi læknum og ástvinum þeirra, sem og landsmönnum öllum, hugheilar nýárskveðjur og þakka kærlega fyrir árið sem er að líða. Tökum á móti nýja árinu full bjartsýni og baráttuanda.
Steinunn Þórðardóttir
formaður LÍ
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga