Vilja að ráðherra kanni kjör heilsugæslulækna

Segir fullyrðingu forstjóra koma á óvart

Reynir Arngrímsson,  formaður Læknafélags Íslands, segir að fullyrðing setts forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hafi komið á óvart. Í ljósi frétta á dögunum um að læknum væru greiddar allt að 220.000 krónur fyrir sólarhringinn á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefði mátt ætla að það væri mun dýrara að hafa lækna á verktakagreiðslum en fastráðna. „Við teljum vandséð hvernig það geti staðist nema verið sé að greiða lægri laun en samkvæmt kjarasamningi. Við höfum óskað eftir því við heilbrigðisráðherra að það verði kannað hvernig það geti staðist. Ef þetta hefur viðgengist þá lítum við það alvarlegum augum. Afleiðingar af undirboðum sem þessum geta ekki verið aðrar en að læknar fáist ekki til starfa með þeim afleiðingum að þjónusta hlýtur að skerðast,“ segir hann.

Kanna hvort læknum standi ekki fastráðning til boða

Læknafélag Íslands hefur undanfarna tvo sólarhringa fengið upplýsingar um það að læknum sem vilja fastráðningu til lengri tíma á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni standi aðeins til boða ráðning með verktakasamningi. „Læknar hafa haft samband við okkur og bent á dæmi um að þeir hafi sóst eftir fastráðningu samkvæmt kjarasamningi og verið neitað um það. Við höfum óskað eftir því að ráðuneytið kanni málið. Við höfum engar ástæður til að efast um þessar frásagnir læknanna,“ segir hann. 

 

Sjá frétt á ruv.is