„Það er gleðilegt að tekist hefur að halda fjölda innanlandssmitum innan skaplegra marka síðustu vikur og því eðlilegt að velta fyrir sér hvort nú sé betri tíð í vændum. Á hinn bóginn er áhyggjuefni að vaxandi fjöldi smita hefur greinst á landamærunum undanfarna daga sem skýrist af því að faraldurinn er enn á miklu flugi í nágrannalöndunum,“ segja þeir Davíð O. Arnar og Runólfur Pálsson, yfirlæknar á Landspítala, í grein í Morgunblaðinu í dag.
„Við teljum því mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á tvöfalda skimun við komu til landsins og að íhuga ætti að gera hana að skyldu.“
Í greininni segja þeir að tæplega megi gera ráð fyrir að lífið hér verði komið í eðlilegt horf fyrr en í fyrsta lagi eftir mitt ár 2021. „Að okkar mati er brýnt að fyrirliggjandi þekking og reynsla verði nýtt til að veita vel ígrundaðar tilslakanir sem miða að því að auka virkni samfélagsins án þess að því þurfi að fylgja mikil hætta á dreifingu smits.“
Þeir segja að skilgreina þurfi starfsemi og viðburði sem ætti að vera unnt að útfæra með sóttvarnaráðstöfunum sem draga verulega úr smithættu og yrði þá höfðað til ábyrgðar forsvarsaðila á að reglum yrði framfylgt auk þess sem eftirlit yrði með starfseminni. Þeir vara við áfenginu. „Af þeim sökum er ástæða til að farið verði varlega í afléttingu takmarkana á afgreiðslutíma vínveitingahúsa.“
Þeir segja að sú spurning vakni hvort nýta megi reynslu af afreksíþróttum á farsóttartímum við skipulag íþróttaiðkunar almennings. „Það ætti að vera mögulegt að útfæra sóttvarnir á líkamsræktarstöðvum á þann hátt að smithætta sé í lágmarki.“
Þeir hvetja til að fólk virði reglur; hreinsi hendur, virði tveggja metra reglu og takmarki hópamyndun.
Myndir/Skjáskot/Morgunblaðið
Áskrifendur geta lesið greinina hér.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga