Stjórn Læknafélags Íslands ræddi á fundi sínum 14. desember sl. yfirlýsingu frá #metoo hópi kvenna í læknastétt sem leiddi í ljós að atvinnugreinin er á engan hátt undantekning frá reglunni um kynbundið ofbeldi og áreitni. Augljóst er að taka þarf á vandanum með öllum tiltækum ráðum og uppræta hvers kyns kynferðislegt ofbeldi og mismunun innan raða lækna og í samstarfi þeirra við aðrar heilbrigðisstéttir.
Stjórn LÍ mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að konur í læknastétt standi í einu og öllu jafnfætis körlum hvað fagleg samskipti, samvinnu og þróun í starfi varðar. Sama gildir gagnvart yngri læknum og öðrum sem af einhverjum ástæðum eru líklegir til að verða fórnarlömb valdníðslu á vinnustöðum sínum. Í siðareglum sem Læknafélag Íslands setur félagsmönnum sínum er skýrt ákvæði um að læknar hafi góða samvinnu sín á milli og sýni hver öðrum fulla virðingu. Í kjölfar þeirrar grafalvarlegu stöðu sem #metoo hópar kvenna í fjölmörgum stéttum hérlendis og erlendis hafa afhjúpað mun LÍ efla bæði umræðu og árvekni fyrir því að ástandinu verði tafarlaust snúið til betri vegar.
Þegar hefur verið ákveðið að efna til sérstaks málþings á Læknadögum í janúar nk. um samskipti innan læknastéttarinnar. Sömuleiðis hefur ákvörðun verið tekin um að fela vinnuhópi á vegum stjórnar og siðfræðiráðs Læknafélags Íslands að gera tillögur um hvernig LÍ getur lagt sitt af mörkum til þess að uppræta þessa meinsemd í annars frábæru hópefli innan læknastéttarinnar.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga