„Við búumst við óhefðbundinni samveru. Við hlökkum til að sjá sem flesta,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar Læknafélagsins og heimilislæknir á Sólvangi í Hafnarfirði. Hún á von á að um 100 heimilislæknar fylgist með Heimilislæknaþingi 2020. Það verður haldið í dag og á morgun rafrænt vegna kórónuveirufaraldursins.
Fjöldi erinda er á dagskrá og setja þau Salóme Ásta Arnardóttir, formaður FÍH og Emil Lárus Sigurðsson, prófessor, þingið klukkan 12:45. Tíu erindi auk ávarps eru á dagskráinni í dag og annað eins á morgun.
„Þetta er okkar leið til að hafa samveru án þess að hittast. Það eru margir orðnir langþreyttir í faraldrinum og því höldum við okkar striki. Það kom til tals að fresta og aflýsa en við ákváðum að halda þessu til streitu. Við búumst við að það verði um 100 heimilislæknar og sérnámslæknar sem fylgist með. Við búumst við líflegum fyrirlestrum og fyrirspurnum um netið.“
Þingið fer fram á Teams og hafa heimilislæknar fengið vefslóðina senda.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga