„Kominn er fram nýr ógnvaldur við heilsu manna á suðvesturhluta Íslands, eitraðar lofttegundir sem berast frá eldstöðinni í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Vitað er að þær geta valdið aukningu á öndunarfæraeinkennum og notkun innöndunarlyfja. Minna er vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu,“ ritar Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir í ritstjórnargrein í 5. tölublað Læknablaðsins sem er komið út.
Margt fréttnæmt má finna í nýju Læknablaði. Guðrún Dóra Bjarnadóttir geðlæknir segir frá því í pistli að starfsfólk Landspítala sé sett í þá ómögulegu stöðu að velja hver þurfi mest á dýrmætu plássi halda og útskrifa þann sem er minnst veikur. „Svona ganga dagarnir – upplifun starfsfólks að einungis þurfi að gera rétt svo nægilega mikið til þess að viðkomandi sé útskriftarfær og vonast síðan til að þetta reddist,“ ritar hún.
Sagt er frá því að algengi sykursýki 2 hafi meira en tvöfaldaðist í nær öllum aldurshópum hjá bæði körlum og konum á tímabilinu (18-79 ára) frá árinu 2005-2018. Þetta kemur fram í fræðigrein Bolla Þórssonar, Elíasar Freys Guðmundssonar, Gunnars Sigurðssonar, Thors Aspelund og Vilmundar Guðnasonar sem ber yfirskriftina Algengi og nýgengi sykursýki 2 á Íslandi frá 2005 til 2018.
Þá má líka sjá í fræðigrein Sigrúnar Guðnýjar Pétursdóttur, Jóns Magnúsar Kristjánssonar og Hjalta Más Björnssonar að sumarið 2020 slösuðust einn til tveir einstaklingar á dag á höfuðborgarsvæðinu vegna rafskúta. Enginn þeirra hafi hins vegar hlotið alvarlega áverka.
Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala, segir frá því í viðtali að börn og unglingar glími við meiri tilfinningavanda en áður. Tölur bendi til þess að tíðni sjálfsvíga barna og ungmenna á aldrinum 15-19 ára sé enn há hér á landi. Hann segir það ekki tilviljun heldur langtímaafleiðingu sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga