Aðalfundi Læknafélags Íslands 2018 lauk skömmu fyrir kl. 18 í dag. Aðalfundurinn samþykkti fjölmargar ályktanir sem nánar verða kynntar síðar.
Þá voru samþykktar örfáar lagabreytingar og m.a. samþykkt að framvegis starfi á vegum félagsins sérstök samskipta- og jafnréttisnefnd, sem hefur þann tilgang að stuðla að jákvæðum samskiptum og jafnrétti með áherslu á mál er varða kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og einelti. Hlutverk nefndarinnar verður að stuðla að fræðslu og forvörnum og tryggja að viðbragðsáætlanir og verkferlar séu til staðar á vinnustöðum lækna og taka við erindum frá félagsmönnum LÍ. Tillaga þessi kemur í framhaldi af #metoo vinnu LÍ.
Samkvæmt nýju skipulagi LÍ sem samþykkt var á aðalfundi 2017 tekur nú til starfa ný stjórn sem valin er með öðrum hætti en tíðkast hefur. Formaður er kostinn í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna LÍ en aðrir stjórnarmenn eru valdir af hinum fjóru nýju aðildarfélögum LÍ. Formaður hvers aðildarfélags er sjálfkjörinn í stjórnina en hinn fulltrúi hvers aðildarfélags er valinn af félagsmönnum viðkomandi félags. Vegna bráðabirgðaákvæðis með breytingum á lögum LÍ sem samþykkt voru 2017 verður stjórn LÍ þó skipuð 10 stjórnarmönnum á næsta starfsári þar sem sitjandi gjaldkeri félagsins var kosinn 2017 til tveggja ára áður en skipulagsbreytingarnar voru samþykktar.
Í stjórn LÍ starfsárið 2018-2019 eiga sæti:
Reynir Arngrímsson, formaður
Björn Gunnarsson, gjaldkeri
Frá Félagi almennra lækna: Guðrún Ása Björnsdóttir, formaður FAL og Ýmir Óskarsson
Frá Félagi ísl. heimilislækna: Salóme Ásta Arnardóttir, formaður FÍH og Jörundur Kristinsson
Frá Félagi sjúkrahúslækna: María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður FSL og Gunnar Mýrdal
Frá Læknafélagi Reykjavíkur: Þórarinn Guðnason, formaður LR og Guðmundur Örn Guðmundsson.
Varaformaður og ritari stjórnar LÍ næsta starfsár verða kosin á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar sem væntanlega verður haldinn 19. nóvember nk.
Stjórn Læknafélags Íslands starfsárið 2018-2019:
Efri röð f.v.: Ýmir Óskarsson, Björn Gunnarsson, Reynir Arngrímsson, Jörundur Kristinsson, Þórarinn Guðnason og Gunnar Mýrdal
Neðri röð f.v.: María I. Gunnbjörnsdóttir, Guðrún Ása Björnsdóttir, Salóme Ásta Arnardóttir og Guðmundur Örn Guðmundsson
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga