Aðalfundur LÍ haldinn 8. og 9. nóvember 2018 samþykkti sjö ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál.
Ályktun um heimilislækningar skorar á ríkisstjórnina, fjármálaráðuneyti og Alþingi að efla heimilislækningar og tryggja öllum landsmönnum sinn heimilislækni og setja heimilislækningar sem grunnstoð heilbrigðiskerfisins í raunverulegan forgang.
Ályktun um erlent vinnuafl skorar á ríkisstjórnina, velferðarráðuneyti og Alþingi að bæta og jafna stöðu erlends vinnuafls á Íslandi. Læknar verði í daglegu starfi sínu vitni að því að endurtekið sé brotið á réttindum erlends vinnuafls. Því sé mikilvægt að upplýsingagjöf til þessa hóps sé bætt og viðurlög hert við brotum.
Ályktun um rafrettur og reykingar skorar á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum eftir því fyrirkomulagi sem nú er því rafrettur eru hættulegar. Finna þurfi viðeigandi lausn á sölu rafretta sem hjálpartækja. Núverandi sölufyrirkomulag sé óásættanlegt. Sá árangur sem Íslendingar hafi náð í að minnka reykingar barna sé á heimsmælihvarða og honum sé stefnt í hættu með núverandi fyrirkomulagi á sölunni eins og nýbirtir lýðheilsuvísar landlæknis sýna. Þar kom fram að ríflega 22% tíundubekkinga í grunnskóla reyktu rafrettur einu sinni eða oftar sl. mánuð.
Ályktun um stuðning við kröfur Læknafélags Reykjavíkur hvetur heilbrigðisráðherra til að beita sér fyrir því að nýr samningur verði gerður milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sérgreinalækna um sérfræðilæknisþjónustu áður en gildandi samningur rennur út um næstu áramót. Mikilvægur þáttur samnings SÍ við sérgreinalækna þurfi að vera skilvirk og fagleg umgjörð um nýliðun lækna án pólitískra afskipta. Án samnings SÍ við sérgreinalækna telur LÍ að hætta aukist á mismunun á aðgengi á læknisþjónustu á grunni efnahags.
Ályktun vegna stöðu mannauðsmála hjá heilbrigðisstofnunum fordæmir ítrekuð brot undirstofnana heilbrigðisráðuneytisins er lúta að störfum lækna. Brotin hafi verið staðfest í dómum, dómssáttum og álitum umboðsmanns Alþingis. Aðalfundurinn telur þessi mál lýsa stjórnunarstefnu sem fengið hafi að viðgangast óáreitt í heilbrigðiskerfinu þar sem ekki sé brugðist við af stjórnvöldum þegar stjórnendur heilbrigðisstofnana verði uppvísir að ólögmætri stjórnsýslu.
Ályktun um vinnu við gerð heilbrigðisstefnu bendir á að íslenskir læknar hafi víðtæka þekkingu á kostum og göllum mismunandi heilbrigðiskerfa. Þá þekkingu eigi að nýta við gerð heilbrigðisstefnu. Lýst er áhyggjum yfir vinnubrögðum við gerð heilbrigðisstefnu á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem félögum lækna hafi ekki verið boðið að senda fulltrúa á fjölmarga undirbúningsfundi. LÍ og aðildarfélög þess lýsa sig reiðubúin að taka virkan þátt í gerð heilbrigðisstefnunnar.
Ályktun um vinnufyrirkomulag almennra lækna hvetur stjórnendur Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana að sýna almennum læknum tillitssemi og virðingu í samskiptum er varða almennt vinnufyrirkomulag.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga