„Gleðilefni. Það er ánægjulegt að opnað hafi verið fyrir valkvæðar aðgerðir um leið og rofaði til í samfélaginu,“ segir Guðmundur Örn Guðmundsson, bæklunarskurðlæknir í Orkuhúsinu og varaformaður Læknafélags Reykjavíkur. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu landlæknis um að fella úr gildi auglýsingu um frestun valkvæðra skurðaðgerða og annarra ífarandi aðgerða.
Guðmundur Örn segir sjálfstætt starfandi lækna hafa verið mjög vonsvikna með að hafa þurft að stöðva skurðaðgerðastarfsemi sína. Könnun framkvæmd af Embætti landlæknis hafi sýnt að á fjögurra ára tímabili hafi hátt í 11 þúsund liðspeglanir átt sér stað og í aðeins rétt ríflega tuttugu tilfella hafi skjólstæðingar leitað á Landspítala í kjölfarið. Hann áréttar þó að erfitt hafi verið að fá nákvæmar upplýsingar um málið.
„Við hefðum viljað sjá ákvörðunina um að stöðva valaðgerðir byggða á tölulegum gögnum sem beinlínis sýna fram á að starfsemi okkar auki álagið á Landspítalann,“ segir hann. Forsenda stöðvunarinnar hafi verið sögð að vernda spítalann en ljóst að litlar líkur séu á að sjúklingar sem hafi ekki undirliggjandi áhættuþætti þurfi að sækja þá þjónustu.
„Ég tel að það megi segja að viðeigandi áhættumat hafi ekki farið fram,“ segir Guðmundur. Mikilvægt sé að svo verði, þurfi aftur að grípa til þess að fresta valkvæðum aðgerðum á stofum utan spítalans. Hann segir að nú sé unnið að því að fjölga skurðdögum svo vinna megi upp biðlista. Búast megi við að unnið verði um helgar til að þjóna sem flestum. „Rask síðustu mánaða hefur skilið fólk eftir í óvissu sem ánægjulegt er að aflétta.“
Auk stofa utan Landspítala hefur spítalinn sjálfur nú gefið út að valkvæðar aðgerðir þar verði framkvæmdar þegar á morgun, 12. nóvember. Á vef Landspítala segir: „Landspítali hefur að undanförnu sinnt bráðaaðgerðum og þeim aðgerðum sem ekki var unnt að fresta en skalar nú upp skurðstofustarfsemi á næstu dögum.“
Í auglýsingu heilbrigðisráðuneytisins þar sem tilkynnt er um þessar breytingar segir: „Landlæknir hvetur lækna til að hefja að nýju valkvæðar aðgerðir samkvæmt getu hverrar stofnunar en biðlar til sjálfstætt starfandi lækna að bíða heldur lengur með stærri aðgerðir og verður í sambandi við hlutaðeigandi vegna þess.“ Í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd segir að Landspítali hafi hafið undirbúning afléttingar neyðarstigs. Því var lýst yfir 25. október 2020 og stefnt er að því að færa spítalann á hættustig á morgun, 12. nóvember. - gag
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga