Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga, er heiðursvísindamaður Landspítala 2020, og Viðar Örn Eðvarðsson, barnalæknir, hlaut verðlaun Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands 2020. Þetta var upplýst á Vísindum að hausti, árlegri uppskeruhátíð vísinda á Landspítala, sem fór fram þann 7. október.
Davíð O. Arnar er yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, formaður Félags íslenskra lyflækna og gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Verðlaunin eru veitt árlega þeim sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri í vísindarannsóknum á starfsferli sínum.
„Hans megin áhugasvið í vísindarannsóknum snýr að erfðafræði hjartsláttartruflana, sér í lagi gáttatifs, og nýtingu erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Davíð hefur unnið mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið verulega athygli, birst í mjög virtum tímaritum og aukið skilning okkar á grunnorsökum hjartsláttartruflana. Hafa rannsóknirnar meðal annars sýnt fram á mikilvægi stökkbreytinga í genum sem tjá samdráttarprótín hjartavöðvafruma í tilkomu gáttatifs. Hafa þessar uppgötvanir leitt til grundvallarbreytinga á hugmyndun um meingerð þessarar algengu hjartsláttatruflunar og gætu leitt af sér nýja nálgun í áhættumati og meðferð sjúkdómsins.“
Einnig hafi Davíð unnið heilmikið að klínískum rannsóknum. „Þar má nefna samstarfsverkefni með Hjartavernd á afleiðingum gáttatifs á heila, sér í lagi áhrif til skerðingar á vitrænni getu, minnkunar á heilablóðflæði og heilarúmmálsrýrnun. Davíð hefur mikinn áhuga á nýtingu snjalltækni til fjarvöktunar á einkennum og líðan hjartasjúklinga sem og til að efla fræðslu um mikilvægi lífstílsbreytinga. Davíð undirbýr nú rannsóknir á fýsileika þess að bæta við fjareftirliti og fræðslu með snjalltækni til viðbótar hefðbundinni meðferð við kransæðasjúkdómi, hjartabilun og gáttatifi í samstarfi við fyrirtækið Sidekick Health,“ segir í tilkynningu sem mbl.is birtir.
Viðar Örn Eðvarðsson er sérfræðingur í barnalækningum og nýrnalækningum barna. Hann er umsjónarlæknir nýrnalækninga barna á Barnaspítala Hringsins á Landspítala og prófessor í barnalæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, segir á vef Landspítala. Verðlaunin nemi tveimur milljónum króna og hlaut Viðar þau á grundvelli verkefnisins: Þættir sem stuðla að steinamyndun og nýrnasjúkdómi hjá sjúklingum með APRT-skort og 2,8-díhydroxýadenínmigu.
„Viðar lauk embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1987. Hann lagði stund á sérfræðinám í barnalækningum við Medical College of Georgia, í Augusta í Georgíu, Bandaríkunum, og í nýrnalækningum barna við St. Christopher’s Hospital for Children og Temple Háskóla í Philadelphia í Bandaríkjunum. Viðar var ráðinn dósent við læknadeild Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut framgang í starf prófessors í barnalæknisfræði við sama skóla árið 2020.“
Sagt er frá því að Viðar og Runólfur Pálsson, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, hafi árið 2009 stofnað ásamt leiðandi vísindamönnum í Bandaríkjunum samstarfshópinn The Rare Kidney Stone Consortium (www.rarekidneystones.org/) með það að markmiði að rannsaka sjaldgæfar orsakir nýrnasteina og kristallamiðlaðra nýrnaskemmda (kristallanýrnameins).
„Meðal þessara kvilla er adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skortur sem erfist með víkjandi máta og veldur bæði nýrnasteinum og langvinnum nýrnasjúkdómi sem leiðir til nýrnabilunar ef ekki er brugðist við með viðeigandi meðferð í tæka tíð. APRT-skortur er óvenju algengur meðal Íslendinga en 35 einstaklingar hafa greinst með sjúkdóminn hér á landi. Rannsóknarhópurinn á Landspítala hefur stofnað alþjóðlega miðstöð fyrir rannsóknir á APRT-skorti sem er nú leiðandi á heimsvísu.“
Á undanförnum áratug hafi umfangsmiklum gögnum og lífsýnum verið safnað frá liðlega 60 einstaklingum með APRT-skort frá ýmsum löndum og er þetta gagna- og lífsýnasafn það stærsta sinnar tegundar. „Rannsóknarhópurinn hefur enn fremur þróað aðferðir til greiningar á APRT-skorti sem jafnframt koma að notum við eftirlit með lyfjameðferð. Þessar aðferðir munu án efa efla klíníska þjónustu og rannsóknir enn frekar á komandi árum. Vinna hópsins hefur þegar leitt til birtingar fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum á sviði lífvísinda, einnar doktorsvarnar og útskriftar fjögurra meistaranema. Sérstök áhersla verður áfram lögð á þjálfun ungra vísindamanna.“
Verðlaunastyrkur Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands muni nýtast til áframhaldandi uppbyggingar gagna- og lífsýnasafns APRT-skorts sem skapar sterkan grundvöll fyrir frekari vísindarannsóknir á þessum sjúkdómi. „Í undirbúningi eru rannsóknir á meinmyndun kristallamiðlaðra nýrnaskemmda hjá sjúklingum með APRT-skort. Markmið rannsóknanna er að finna fleiri meðferðarúrræði við APRT-skorti en völ er á í dag, m.a. lyfjameðferð sem stöðvar eða hamlar framrás kristallanýrnameins.“
Mynd/Samsett skjáskot/Landspítali/mbl.is
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga