Fréttir frá aðalfundi LR


Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur 2017 var haldinn í gær, mánudaginn 29. maí í húsakynnum Læknafélags Íslands, Hlíðasmára 8, Kópavogi.

Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf. Arna Guðmundsdóttir formaður LR kynnti skýrslu stjórnar og störf hennar frá síðasta aðalfundi. Þórdís Anna Oddsdóttir kynnti ársreikninga félagsins. Úr stjórn gengu Þórdís Anna sem verið hefur gjaldkeri og Gunnlaugur Sigurjónsson sem verið hefur ritari. Í þeirra stað var Magnús Baldvinsson kosinn gjaldkeri og Tryggvi Helgason kosinn ritari. Í stjórninni á komandi starfsári eru: Arna Guðmundsdóttir formaður, Þórarinn Guðnason varaformaður, Magnús Baldvinsson gjaldkeri, Tryggvi Helgason ritari og Guðmundur Örn Guðmundsson meðstjórnandi. 


Á fundinum var lögð fram ályktunartillaga um um trúnaðarbrest milli yfirlækna rannsóknasviðs og rekstrarstjórnenda Landspítala. Tillagan var samþykkt samhljóða og er svohljóðandi.


Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur haldinn 29. maí 2017 lýsir yfir þungum áhyggjum vegna alvarlegs trúnaðarbrests sem kominn er upp á milli yfirlækna og sérfræðilækna rannsóknastofa Landspítala og rekstrarstjórnenda Landspítala. Trúnaðarbresturinn stafar af breytingum á fyrirkomulagi stjórnunar á rannsóknasviði, sem tóku gildi um s.l. áramót í andstöðu við vilja lækna. Læknafélag Reykjavíkur krefst þess að skipulagsbreytingarnar verði dregnar til baka og að samráð verði haft við yfirlækna og sérfræðilækna á Landspítala um framtíðarskipan og fyrirkomulag lækningarannsókna á Landspítala, sem er endastöð lækningarannsókna og margra alvarlegra sjúkdómsgreininga á Íslandi.

Aðalfundur LR minnir á, að skv. 10. grein laga um heilbrigðisþjónustu ætlast löggjafinn til þess, að yfirlæknar sérdeilda veiti forstöðu læknisfræðilegum sérgreinum og hafi eftirlit með starfsemi þeirra á grundvelli læknisfræðilegrar sérþekkingar sinnar í viðkomandi sérgreinum. M.a er um að ræða meinafræðilegar læknisfræðilegar sérgreinar, sem greina krabbamein, sýkingar, litningagalla, stökkbreytingar, blóðsjúkdóma, ónæmisbælingu, nýrnasjúkdóma, sykursýki, lyfjaáhrif, eitranir o.s.frv.

Til að tryggja öryggi sjúklinga á LSH verður stjórn sjúkrahússins að sjá til þess, að læknisfræðilegum sérgreinum rannsóknardeilda sé stýrt af faglega ráðnum yfirlæknum, sem eru viðurkenndir sérfræðingar í viðkomandi sérgreinum læknisfræðinnar. Án slíks fyrirkomulags verður ekki séð, að viðurkenndum viðmiðunarkröfum verði mætt á Landspítala eða að háskólasjúkrahúsið standi undir nafni.

 

Allnokkrar umræður urðu undir liðnum önnur mál. Þar kom m.a. fram að LR hyggst halda almennan félagsfund fimmtudaginn 8. júní nk. þar sem fjallað verður um grein sem nýlega birtist í tímaritinu Lancet sem metur íslenska heilbrigðiskerfið það næst besta í heimi. Framsögumaður verður Thor Aspelund prófessor og formaður Faralds-og líftölfræðifélagsins. Fundurinn verður nánar auglýstur.