„Við höfum vitað hvernig ástand húsnæðis hefur verið á Landspítalanum. Við höfum bent á það í mörg ár og áratugi að það þurfi úrbætur og þrýst á að það yrði byggður nýr spítali,“ sagði Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi. Alltaf hafi teygst á áformum um uppbyggingu. Aðstæður, þar sem jafnvel aðeins einn metri sé á milli rúma sjúklinga, séu ófullnægjandi.
Reynir sagði að læknar vænti að það komi úrbótatillögur í niðurstöðum rannsókna sem gerðar verði á Landakoti. Setja þurfi á dagskrá hvar öldrunardeildarlækningar Landspítala eigi að vera.
„Þær eru ekki á Hringbrautarreitnum. Þær eru ekki í meðferðarkjarnanum á nýja Landspítalanum,“ benti Reynir á. Svara þurfi skýrum orðum hvað gera eigi við eldra fólk í framtíðinni. Ákjósanlegast væri að þjónusta fólkið á Hringbrautarlóðinni. „Það er eina raunhæfa lausnin að okkar mati.“
Hann sagði ljóst að áætlanir fyrir nýjan Landspítala ganga of skammt. „Það er ekki gert ráð fyrir öldrunarlækningadeild. Það er ekki gert ráð fyrir kvenlækningum. Það er ekki gert ráð fyrir fæðingardeild og ekki gert ráð fyrir að geðdeildin fari í nýtt hús,“ sagði hann.
„Við spyrjum þá líka: Hvernig ætlum við að koma þessari þjónustu fyrir? Hvar ætlum við að skipuleggja hana? Hvað ætlum við að nota mikið af gamla húsnæðinu á Hringbrautarreitnum? Er það réttlætanlegt? Eru þau í nógu góðu standi og hvað kostar að byggja nýtt yfir þessa þjónustu?“ Hann sagði nú spurt um ábyrgð stjórnmálamanna? Þeir þurfi að skoða stöðuna og taka afstöðu.
Rætt var við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í sama þætti. Hann kom einnig inn á andlátin í kjölfar smita á Landakoti. Hann sagði atburðinn grátlegan og frávik frá annarri starfsemi Landspítala.
„Þess vegna finnst mér sárt að þurfa að viðurkenna að það hafi orðið á mistök. En það má ekki gleyma því að Landspítali, áður en faraldurinn kom, rétt hélt höfðinu upp úr vatni. Það var geysilega mikið að gera. Svo kemur faraldurinn,“ benti hann á og að þá væri hætta á að mistök eigi sér stað. Hlúa þurfi að heilbrigðiskerfinu. „Það er mikilvægt þegar við göngum frá þessu vandamáli að við sjáum til þess að heilbirgðisstarfsmenn séu ekki settir í þá stöðu að þeir verði fyrir því að bera smit milli sjúklinga.“
Kári ræddi einnig komu bóluefnis gegn COVID-19 í samtalinu við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut. „Þróun bóluefnis gegn COVID-19 hefur gengið ótrúlega vel og á örskotsstundu,“ sagði hann. „Gaman er að sjá hvernig lyfjaiðnaðurinn, sem er venjulega dálítið klaufskur og seinn í svifum, gat brugðist hratt við þegar raunverulega lá á.“ Með bóluefni Moderna og Pfizer verði lífið á nýju ári aftur óháð faraldri.
Kári ræddi einnig hverja hann teldi eiga að fá bóluefnið fyrst. Hann teldi ekki nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk yrði í forgangi þegar kæmi að bóluefni gegn COVID-19. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði svo á upplýsingafundi almannavarna nú í dag ekki sammála þessari skoðun Kára, eins og haft var eftir honum í frétt á Hrinbraut.
Mynd/Skjáskot/Hringbraut
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga