Margt er á huldu varðandi hegðun veirunnar SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Fjölgun staðfestra smitaðra hefur vaxið hratt hérlendis sl. sólarhringa en ekkert tilfelli hefur verið rakið til smitunar innanlands. Íslenskt heilbrigðiskerfi er m.a. vegna smæðar sinnar viðkvæmt og afdrifaríkt gæti verið ef upp koma smit og veikindi hjá læknum.
Með það í huga hefur Læknafélag Íslands ákveðið að fresta fyrirhuguðum fundum á vegum þess á næstunni, þ.m.t. fundi um skýrslu átakshóps heilbrigðisráðuneytisins sem halda átti á morgun, miðvikudag 4. mars kl. 19.30 og formannafundi sérgreinafélaga sem var á dagskrá fimmtudaginn 5. mars kl. 16.30.
Jafnframt fer LÍ þess á leit við lækna að þeir fresti öðrum fundum og þátttöku í samkomum sem ekki telst nauðsynleg eða getur beðið á meðan það er að skýrast hvert umfang faraldursins verður. Landlæknir hefur verið upplýstur um þessa ákvörðun félagsins.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga