Gagnrýnt að ráðuneyti hafi ekki svarað sjálfstæðum stofnunum

„Umfjöllun Læknablaðsins um hjúkrunarrými og viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum er sláandi,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í gær, 10. desember. Blaðið vísar til viðtala við þau Teit Guðmundsson, lækni og framkvæmdastjóra Heilsuverndar, og Önnu Birnu Jensdóttur, framkvæmdastjóra Öldungs sem rekur Sóltún.

Sagt er frá því í Læknablaðinu að á sama tíma og rétt liðlega 100 sjúklingar sitja fastir á Landspítala standa sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir á hliðarlínunni. Þær segjast tilbúnar að taka við sjúklingunum en er ekki svarað. „Pólitík og peningar,“ segir Teitur. 

Einnig er sagt frá því að Heilbrigðisráðuneytið hafi sent ákall um fleiri hjúkrunarrými til forstjóra hjúkrunarheimila í tölvupósti þann 5. október. Þar er vandi spítalans áréttaður og beðið um hjálparhönd – það muni um hvert rými. Anna Birna segir Í Læknablaðinu að þótt ráðuneytið segi málið skoðað alvarlega hafi ekki borist símtal þaðan. „Ekki eitt einasta.“ 

Anna Birna vísar í andlátin eftir COVID-19 smitin á Landakoti. Vandinn sem við sé að etja í málaflokknum kristallist í smitunum þar; lélegt húsnæði, skortur á mönnun og fræðslu. Vanda sem hefði mátt afstýra með framsýni í málaflokknum. 

„Smitin á Landakoti vekja upp sorg. Sorg yfir hvernig þetta gerðist. Sorg að ekki sé löngu búið að laga ástandið. Við hefðum getað verið löngu búin að því,“ segir hún.

Í leiðara Morgunblaðsins stendur: „Í samtölum í Læknablaðinu féllu þung orð, en skiljanleg í ljósi þeirrar stöðu sem upp kom á Landakoti og því miður verður ekki sagt að hafi þurft að koma alveg á óvart.“

Í Læknablaðinu segir í svari heilbrigðisráðuneytisins að Alþingi þurfi að tryggja fjárveitingu eigi að fjölga hjúkrunarrýmum hér á landi. Í leiðara Morgunblaðsins er þetta gagnrýnt. Þar segir: „Og það verður að segjast eins og er að sú skýring að ekki hafi fengist fjárheimild hjá Alþingi til að minnka til að mynda þá hættu sem þrengsli á Landakoti höfðu í för mér sér verður að teljast ótrúverðug í ljósi þess hve ríkur vilji hefur verið til þess hjá Alþingi að setja fé í aðgerðir vegna faraldursins.“ Einnig. 

„Þá verður ekki séð að ráðuneytið hafi reynt að afla slíkra heimilda þingsins og ætla má að þingið muni í ljósi svara ráðuneytisins taka þetta til rækilegrar umræðu og fara yfir þær óskir sem þinginu bárust frá ráðuneytinu og hvort þingið hafnaði óskum um slíka neyðaraðstoð vegna kórónuveirufaraldursins.“

Morgunblaðið bendir á að málið hafi ratað inn á Alþingi. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hafi kvatt sér hljóðs í fyrradag og gagnrýndi harðlega að stjórnvöld hefðu ekki virt framkvæmdastjóra Sóltúns og Heilsuverndar viðlits. Karl sagði: „Á sama tíma og liðlega 100 sjúklingar sitja fastir á Landspítala, standi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir með tilbúin sjúkrarúm ónýtt á hliðarlínunni.“ Karl Gauti benti á fleiri fleti. 

„Við höfum horft upp á það síðustu misseri að öllu stórgrýti sem fyrirfinnst er staflað í veg fyrir einkaframtakið. Þannig höfum við horft upp á hvernig frjálsum félagasamtökum hefur, að því er virðist, markvisst verið úthýst í ýmsum greinum heilbrigðismála. Og þá höfum við séð þvermóðskuna hvað varðar biðlista fyrir aðgerðir sem unnt er að framkvæma hér á landi með miklu minni tilkostnaði. En stjórnvöld heilbrigðismála telja betra að greiða erlendum einkaaðilum fyrir þær þó að það sé margfalt dýrara en að gera þessar aðgerðir á einkastofum hér á landi.“

Morgunblaðið fylgir fréttum af grein Læknablaðsins eftir í blaðinu í dag. Þar er staðfest í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn þess að erindi frá Önnu Birnu Jensdóttur f.h. Sóltúns og Teits Gíslasonar f.h. Heilsuverndar hafi borist ráðuneytinu. Þau hafi verið til skoðunar.

Sagt er frá því að fyrirspurn Morgunblaðsins hafi meðal annars lotið að því hvort vilji væri fyrir hendi til að nýta sér þau hjúkrunarrými sem boðin hafa verið m.a. á Oddssonhóteli og í Urðarhvarfi. Í svari heilbrigðisráðuneytisins segir að gera þurfi mun á langtímaúrræðum og skammtímaúrræðum. 

„Til skamms tíma hafi verið brugðist við brýnum vanda Landspítala vegna faraldursins í haust með fjölgun hjúkrunarrýma tímabundið í samstarfi við rekstraraðila heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Markmið Landspítalans um útskriftir einstaklinga hafi náðst með færni- og heilsumati þeirra sem lokið höfðu meðferð á spítalanum. Þá hafi verið sett á fót með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Hlíðaskjóls ehf., sem er í eigu Eirar, sérstök deild fyrir íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu sem smitast höfðu af Covid-19.“ Þá segir í svari ráðuneytisins sem birtist í Morgunblaðinu í dag: „Í þessu ljósi hefur ekki verið þörf á að ráðast í sérstaka samninga fyrir þjónustu eins og um er spurt til að mæta bráðavanda.“

 Myndir/Læknablaðið