Eins og fram hefur komið var aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) haldinn 22. og 23. september sl. Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar LÍ um að árgjald félagsins árið 2017 myndi hækka úr 94.500 kr. í 100.000 kr. Árgjald félagsins var á aðalfundi 2011 hækkað úr 90.000 kr. í 94.500 frá árinu 2012 og hefur verið óbreytt síðan. Stjórn taldi tímabært að hækka árgjaldið enda var félagið rekið með nokkrum halla árið 2015. Auk þess verður LÍ 100 ára í ársbyrjun 2018 og fyrirhugað er að minnast þeirra merku tímamóta með veglegum hætti og mun það kalla á nokkur fjárútlát hjá félaginu. Þá verða gerðar nokkrar nauðsynlegar breytingar á húsakynnum félagsins á næstu mánuðum.
Tillaga stjórnar um árgjald var til umfjöllunar í fjármálahópi aðalfundarins. Niðurstaða fjármálahópsins var sú að leggja til meiri hækkun á árgjaldinu eða úr 94.500 kr. í 110.000 kr. Rök fjármálahópsins voru þau að árgjaldið hefði verið óbreytt um fimm ára skeið á tíma sem laun lækna hefðu hækkað talsvert. Hjá flestum stéttarfélögum eru félagsgjöldin ákveðinn hundraðshluti (langflest með um og yfir 1%) af heildarlaunum félagsmanna og þannig tryggt að félagsgjöld hækki í takt við allar launahækkanir. Þá taldi fjármálahópurinn nauðsynlegt vegna aldarafmælis og annarra atburða sem framundan eru að hækka árgjaldið um hærri fjárhæð en stjórnin hafði lagt til, eða um 15.500 kr. Þetta er liðlega 16% hækkun en launavísitalan hefur hækkað um 40% frá janúar 2012 frá því að árgjöldin hækkuðu síðast.
Tillaga fjármálahópsins um að árgjaldið yrði 110.000 kr. frá 1. janúar 2017 var samþykkt á aðalfundinum með öllum greiddum atkvæðum gegn fimm.
Nýútskrifaðir læknar greiða fjórðungsárgjald árið sem þeir útskrifast, hálft árgjald næstu tvö árin og síðan fullt árgjald. Samkvæmt lögum LÍ greiða læknar sjötugir og eldri ekkert árgjald. Árgjald þeirra sem starfa samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ eru dregin í 10 jöfnum greiðslum af mánaðarlaunum lækna. Árgjald þeirra lækna sem eru sjálfstætt starfandi er innheimt að jafnaði tvisvar á ári með greiðsluseðlum.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga