Orðanefnd Læknafélags Íslands hélt sinn hundraðasta fund 17. apríl sl. í húsnæði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að Laugavegi 13 þar sem Jóhann Heiðar Jóhannsson, læknir og formaður nefndarinnar, hefur haft aðstöðu sem gestafræðimaður. Með honum í nefndinni starfa læknarnir Gerður Aagot Árnadóttir, Magnús Jóhannsson, Reynir Tómas Geirsson og Runólfur Pálsson en Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur og ritstjóri Íðorðabankans, er nefndinni til halds og trausts.
Nefndin hefur frá árinu 2012 haldið reglulega fundi og starfað að endurskoðun og uppfærslu á Íðorðasafni lækna sem birt er í Íðorðabankanum í heild sinni og er þar öllum aðgengilegt. Safnið inniheldur nú rúmlega þrjátíu og þrjú þúsund færslur með læknisfræðilegum heitum á ensku og íslensku og í mörgum tilfellum einnig með latneskum heitum (úr hinu alþjóðlega „læknamáli“). Um það bil þriðjungur orðaforðans hefur verið endurskoðaður á þessum tíma.
Íðorðasafn lækna var áður gefið út á árunum 1985–1989 í fjórtán litlum heftum (samtals 552 bls.) og var þá þegar sem betur fer tölvuvætt. Eftir það voru gefnar út fjórar myndarlegar bækur með alþjóðlegum líffæra-, vefjafræði-, fósturfræði- og sjúkdómaheitum og síðan fleiri sérhefti. Þó að umræðu um læknisfræðileg íðorð væri áfram viðhaldið féll sjálft orðabókarstarfið að mestu leyti niður þar til núverandi orðanefnd var skipuð.
Fréttin er af heimasíðu Árnastofnunar
Sjá einnig heimasíðu orðanefndar
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Skrifstofan er opin 9:00-16:00 alla virka daga