Hvetur ráðandi konur til að sýna þor í leghálsskimunarmálinu

Flutningur á skimun fyrir leghálskrabbameini til Heilsugæslunnar er eitt allsherjarklúður, segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga og kvensjúkdómalæknir og fyrrum formaður Læknaráðs, í grein á Vísi. „Íslenskar konur eiga mun betra skilið nú þegar konur sitja í æðstu embættum landsins sem lúta að heilbrigðismálum.“

Í niðurlagi greinarinnar segir hún: „Það er ekkert mál að leysa þetta mál sem fyrst og ætti að vera á forgangslista hjá þeim konum sem gegna starfi landlæknis, heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra. En þá þurfa ráðandi konur að þora.“

Ebba Margrét gagnrýnir í greininni að konum sé ekki bent á þjónust kvensjúkdómalækna þegar þær fái boðun í skoðun en kvensjúkdómalæknar hafi tekið um helming allra skimana fyrir breytinguna. „En þið konur megið vita að þið eruð velkomnar til kvensjúkdómalækna og við tökum gjarnan sýni um leið og við sinnum öðrum læknisverkum,“ segir hún um leið og hún spyr yfirvöld: „[S]tenst það jafnræðisreglu að niðurgreiða slíka þjónustu á einum stað en ekki öðrum?“

Ebba Margrét lýsir því einnig í grein sinni hvernig Samhæfingarmiðstöð heilsugæslunnar hendi sumum sýnum sem kvnesjúkdómalæknar hafa tekið. „Þarna er ekki bara verið að vanvirða konur sem koma til lækna með kvartanir og þess vegna eru tekin sýni frá leghálsi heldur er verið að gera lítið úr læknisfræðilegu mati kvensjúkdómalækna og þeim sent skammarbréf. Fádæma framkoma sem við læknar hljótum að mótmæla kröftuglega.“

Ebba setur fram kröfur:

  • Við viljum að sýnin séu skoðuð hérlendis og samningnum við Dani sagt upp.
  • Við viljum að konum landsins sé sagt satt um það hvert þær geti mætt í skoðun og kostnaðurinn fyrir þær sé sá sami.
  • Við viljum að svörin berist hratt og skilvirkt til kvenna.
  • Við viljum að leitarsaga kvenna sé skýr og aðgengileg.
  • Við viljum að þeir sem sinni þessari þjónustu og hafa eftirlit með henni séu ekki beggja vegna borðsins.
  • Við viljum að þeir sem bera ábyrgð á þessu klúðri axli ábyrgð.

Mynd/Skjáskot/Læknablaðið/Védís

  • Lesa greinina á Vísi hér.