Jafnlaunavottun - risastórt hagsmunamál lækna á Landspítala

Úr penna stjórnarmanna LÍ  í Læknablaðinu 4. tbl. 2019.  Í pistlunum birta stjórnarmenn sínar eigin skoðanir en ekki félagsins. 

Landspítali þarf lögum samkvæmt að öðlast jafnlaunavottun. Það liggur fyrir að ákvarðanir teknar á þeirri vegferð munu hafa ráðandi áhrif á launaþróun lækna til skamms og langs tíma og er því afar mikilvægt að vel sé að málum staðið frá upphafi. Því miður virðist sem víða sé pottur brotinn.

Örstutt um jafnlaunavottun

Jafnlaunavottun var lögfest á Íslandi í júní 2017. Til þess að jafnlaunavottun fáist þurfa fyrirtæki að útbúa jafnlaunakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Aðalmarkmiðið með innleiðingu jafnlaunastaðalsins er að tryggja launajafnrétti. Jafnlaunakerfi er síðan nýtt til launasetningar innan fyrirtækja og stofnana og getur það bætt stjórnun og aukið gagnsæi jafnlaunamála. Aðferðafræðin við að hanna jafnlaunakerfi innan hvers fyrirtækis er nokkuð frjáls en vottunina þurfa allir að fá samkvæmt lögum.

Jafnlaunakerfi byggist á starfaflokkun sem flokkar sömu eða jafnverðmæt störf saman til að auðvelda samanburð. Aftur skal tekið fram að fyrirtækjum og stofnunum er í sjálfsvald sett hvernig slíkt kerfi er útfært þar sem starfsemi þeirra og umfang er misjafnt. Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins. Þar starfa tugir starfstétta sem heyra undir um 30 stéttarfélög og starfa eftir álíka mörgum kjarasamningum. Það er ljóst að það er ekki auðvelt að hanna heildstætt kerfi sem metur öll störf innan Landspítala á faglegan máta.

Aðferðafræði Landspítala

Landspítali ákvað að nota starfsmatskerfi fengið frá NHS (National Health Service) í Bretlandi til að flokka störf spítalans fyrir jafnlaunakerfi. Starfsmatskerfi NHS er notað til launasetningar í Bretlandi fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir. Má deila um þetta val þar sem færa má rök fyrir því að í Bretlandi séu allt aðrar aðstæður á vinnumarkaði en hér á landi auk þess sem starfsmatskerfi NHS er ekki hannað fyrir lækna. Það eru til aðrar og jafnvel einfaldari aðferðir til starfaflokkunar og það er vandmeðfarið að bæta læknum inn í kerfi sem ekki er ætlað þeim.

Setja má spurningamerki við að Landspítali fari í þessa umfangsmiklu vinnu án utanaðkomandi sérhæfðrar ráðgjafar eins og nánast öll önnur stórfyrirtæki landsins hafa gert. Að sama skapi má setja spurningamerki við að þrátt fyrir tímaþröng hafi stærsti vinnustaður landsins ákveðið að fara afar flókna leið að markmiðinu sem getur leitt til mikils ágreinings.

Þessi vinnubrögð eru gagnrýni verð og mikilvægt að læknasamfélagið átti sig á hversu miklir hagsmunir eru í húfi til framtíðar.

Forprófanir NHS-starfsmatskerfisins

Á haustmánuðum fór Landspítali í það að þýða, staðfæra og forprófa NHS-kerfið innan veggja spítalans. Hvað varðar lækna virðist kerfið illa fanga faglega og sérstæða ábyrgð þeirra á greiningu og meðferð sjúklinga, vísindavinnu og kennslu. Að sama skapi virðist kerfið tæpast ná utan um menntunarkröfur sem gerðar eru til lækna, þekkingu þeirra, þjálfun og reynslu. Niðurstöður forprófana virðast draga þetta fram svart á hvítu þar sem nánast enginn munur er á milli deildarlæknis (537 stig), ljósmóður (565 stig), deildarstjóra (593 stig) og sérfræðilæknis (624 stig). Er því ljóst að eftirfarandi staðhæfing í skýrslu um niðurstöðu forprófana er umdeilanleg frá sjónarhóli lækna: „Niðurstöðurnar staðfesta enn frekar að drög að starfsmatskerfinu sem lágu til grundvallar í forviðtölum og byggja á því breska, eru vel til þess fallin að ná inntaki starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.“

Lokaorð

Læknar verða að láta sig jafnlaunavottun spítalans varða og stíga fast niður fæti. Störf lækna eru margþætt og viðamikil. Menntun þeirra og ábyrgð er önnur en annarra starfsmanna Landspítala og mikilvægt að jafnlaunakerfi sem myndar grunn að jafnlaunavottun taki tillit til þess.

Starfsmatskerfið mun ráða innbyrðis röðun við launasetningu og launaþróun allra lækna á Landspítala til framtíðar. Það er því eitt stærsta hagsmunamál lækna í dag að ráðist verði að rót vandans með yfirstjórn spítalans og lausn þróuð í samstarfi við lækna og utanaðkomandi sérfræðinga á þessu sviði.

Sjá pistilinn í Læknablaðinu